Innlent

326 kandidatar brautskráðir frá HA í dag

Sveinn Arnarsson skrifar
Háskólinn hefur stöðugt verið að styrkja fjarnám sitt.
Háskólinn hefur stöðugt verið að styrkja fjarnám sitt. Mynd/Kristján Kristjánsson
Háskólinn á Akureyri brautskráir í dag 326 kandídata frá skólanum. Brautskráningin fer fram í fyrsta skipti í húsakynnum skólans, að Sólborg við Norðurslóð, klukkan 11.00. Þetta er jafnframt í síðasta sinn sem Stefán B. Sigurðsson rektor brautskráir kandídata frá skólanum. Hann lætur af störfum síðar í sumar.

Skipting brautskráðra kandídata þetta árið er jöfn milli staðarnema og þeirra sem eru fjar- eða lotunemar. 161 staðarnemi brautskráist frá skólanum að þessu sinni, 85 fjarnemar og 80 lotunemar. Háskólinn á Akureyri hefur í gegnum tíðina verið að styrkja fjarnám sitt og eru nú um fjórir af hverjum tíu nemendum skólans fjar- eða lotunemar.

Á því skólaári sem nú er að ljúka stunduðu um 1.700 nemar nám við skólann á þremur fræðasviðum. Nú brautskrást 166 kandídatar af hug- og félagsvísindasviði, 85 af heilbrigðisvísindasviði og 75 af viðskipta- og raunvísindasviði. Umsóknum í nám Háskólans á Akureyri næsta vetur fjölgaði um 7 prósent frá árinu í fyrra. Rétt tæplega 1.100 umsóknir bárust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×