Lífið

Fyrstu tónleikar Bó í Hafnarfirði

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Björgvin Halldórsson kemur fram ásamt hljómsveit í Bæjarbíó á föstudagskvöldið.
Björgvin Halldórsson kemur fram ásamt hljómsveit í Bæjarbíó á föstudagskvöldið. mynd/rósa
„Ég hef auðvitað margoft spilað í Hafnarfirði en það hefur mestmegnis verið á hinum ýmsu dansleikjum,“ segir tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson, en hann kemur fram á sínum fyrstu formlegu tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði á föstudagskvöld.

Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar tók við lyklunum að hinu sögufræga Bæjarbíói í Hafnarfirði á dögunum og eru tónleikar Bó fyrsta skref félagsins í að gera bíóið að menningarhúsi bæjarins.

„Ég fer yfir ferilinn á tónleikunum og verð með frábæra hljómsveit með mér. Mér þykir mjög vænt um þetta hús og hlakka mikið til að spila þarna,“ segir Björgvin.

Bæjarbíó var upphaflega tekið í notkun árið 1942 en húsið hefur verið lítið notað í annað en kvikmyndasýningar á vegum Kvikmyndasafns Íslands undanfarin ár. „Þegar ég var yngri voru tvö bíó í Hafnarfirði, Bæjarbíó og Hafnarfjarðarbíó. Það er ákaflega ánægjulegt að félagið ætli að opna húsið meira fyrir almenning.“

Stefna Menningar- og listafélags Hafnarfjarðar er einmitt sú að húsið verði sem mest opið framvegis fyrir tónleika, kvikmyndasýningar og allt mögulegt sem þykir henta þessu góða húsi.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 í kvöld. „Miðasalan fer meðal annars fram á Súfistanum sem er einmitt beint á móti bíóinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.