Lífið

Leikstýrir verki á hátíð í London

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hera Fjölnisdóttir leikstýrir verki á listahátíð í London um helgina
Hera Fjölnisdóttir leikstýrir verki á listahátíð í London um helgina .mynd/guðmundur þór gunnarsson
„Þetta er mikill heiður og hlakka ég mikið til,“ segir hinn 24 ára gamli leiklistar- og leikstjórnarnemi, Hera Fjölnisdóttir, en hún leikstýrir verki á listahátíð sem fram fer í Crouch End í London um helgina. Aðeins fimm verk nemenda eru valin til þess að taka þátt í listahátíðinni. „Á hverju ári eru um hundrað verk unnin í skólanum og yfirmaður leikstjórnarsviðsins velur svo einungis fimm verk sem taka þátt í listahátíðinni.“

Hera, sem er á sínu þriðja ári á leikstjórnarbraut í skólanum, The Kogan Academy of Dramatic Arts í London, leikstýrir senu úr óperunni Carmen eftir Georges Bizet á hátíðinni.

Hún kann vel við sig í Lundúnum og stefnir á að vera þar áfram. „Ég kann mjög vel við mig hérna, þetta er algjör draumaborg. Ég ætla að vera áfram hér eftir útskrift og langar að stofna mitt eigið leikhúsfyrirtæki,“ segir Hera. Hana langar einnig að vinna sem mest sem leikkona, bæði á Íslandi og erlendis.

Sumarið hjá henni er undirlagt af leiklistarvinnu í Lundúnum. „Í sumar setjum við upp síðasta leikritið undir handleiðslu kennara og í haust hefst síðasta árið mitt og þá leik ég í verkum hjá samnemendum mínum og leikstýri mínu eigin útskriftarverki, þannig að það eru bara bjartir tímar fram undan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.