Lífið

Áfengisneysla og uppgjör í fyrstu bók

Baldvin Þormóðsson skrifar
Alma Mjöll er listrænn stjórnandi nýs bókaforlags.
Alma Mjöll er listrænn stjórnandi nýs bókaforlags. vísir/vilhelm
„Stærstu sögurnar eru svolítið út frá mér og það getur verið mjög ógnvekjandi að gefa þær út,“ segir hin 23 ára gamla Alma Mjöll Ólafsdóttir sem gefur út sína fyrstu bók, 10.01 Nótt, á afmælisdegi sínum á morgun, föstudaginn þrettánda.

„Bókin er smásagnasafn með einu ljóði sem dreifist yfir bókina, formið er mjög laust,“ segir Alma sem lýsir bókinni sem eins konar uppgjöri hennar við fyrri lifnaðarhætti.

„Bókin á að vera einlæg, heiðarleg og vitnisburður um hvernig það er að vera ungur og týndur, allt skrifað út frá manneskju sem er frekar týnd sjálf,“ segir rithöfundurinn og bætir því við að hún sé á mun betri stað í dag.

„Ég er löngu fundin og það er fallegt, ég hefði aldrei getað gefið út bókina ef ég væri enn þá í sama fari,“ segir Alma. „Sumt í henni er ég alveg skíthrædd við að gefa út en það er svo frelsandi því ég er komin svo langt frá þessu.“

Meginþemað er áfengisneysla

Alma Mjöll segir meginþema bókarinnar vera áfengisneyslu og alkóhólisma og byggir sumar af smásögunum á eigin reynslu. Hún gefur bókina út hjá nýju forlagi sem nefnist Sagarana Editoria.

„Þetta byrjaði þegar ég hélt sýningu í mars á krotinu mínu og í kjölfarið hafði maður samband við mig sem var að stofna nýtt forlag,“ segir Alma en henni var síðan boðið að vera listrænn stjórnandi og sjá um bókarkápuhönnun forlagsins.

„Það er besta vinna sem ég get ímyndað mér, algjör millivegur á milli þess sem ég elska, myndlistar og bóka,“ segir Alma og hlær en systir hennar, Helga Dögg Ólafsdóttir, hannar kápuna á 10.01 Nótt.

„Mér finnst mjög fallegt að systir mín fái að gera kápuna því hún er svo persónuleg bókin,“ segir rithöfundurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.