Lífið

Brýtur staðalímyndir í fyrirsætuheiminum

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Hér má sjá meðlimi Alda-samtakanna sem allar eru farsælar fyrirsætur. Frá vinstri: Inga, Ashley Graham, Marquita Pring, Julie Hendersen og Danielle Redman.
Hér má sjá meðlimi Alda-samtakanna sem allar eru farsælar fyrirsætur. Frá vinstri: Inga, Ashley Graham, Marquita Pring, Julie Hendersen og Danielle Redman.
„Markmið hópsins er að brjóta múra og staðalímyndir fyrirsætugeirans en ég tel að samfélagið sé farið að gera aukna kröfu um að sjá fjölbreyttari líkama í blöðum og á tískupöllunum,“ segir fyrirsætan Inga Eiríksdóttir, ein af stofnendum Alda, samtaka fyrirsætna í yfirstærð.

Inga býr og starfar í New York en hún stofnaði hópinn í fyrrasumar í kjölfar þess að skrifstofa hennar, Ford Models, minnkaði starfsemi sína og hætti að vera með fyrirsætur í yfirstærð á sínum snærum.

„Ég hóaði saman nokkrum af þeim sem voru með mér, fyrirsætur sem eru búnar að gera það gott ásamt sjálfri mér, og lagði til að við stofnuðum þessi samtök og byðum okkur svo fram sem hóp á nýja skrifstofu,“ segir Inga en hópurinn er nú á mála hjá stærstu fyrirsætuskrifstofu í heimi, IMG Models.

„Þeir voru sammála okkur um að það sé enginn munur á fyrirsætum eftir því í hvaða stærð þær eru og eru því að hjálpa mikið við að breyta þessu með okkur. Við erum sendar í sömu prufur og vinnu og allar aðrar fyrirsætur sem þeir hafa sem var ekki í boði áður. Að kalla þetta yfirstærð eða „pluz size“ er því að verða úrelt.“

Inga Eiríksdóttir er öllum hnútum kunnug í fyrirsætubransanum þar sem hún hefur starfað í fimmtán ár og síðustu átta árin sem fyrirsæta í yfirstærð. Hún er líka menntaður jógakennari.
Ásamt því að ætla að standa vörð um réttindi fyrirsætna og auka veg fyrirsætna í yfirstærð í tískuheiminum ætlar hópurinn að halda námskeið í sjálfsstyrkingu fyrir ungar stúlkur og fyrirsætur.

„Á dögunum stóðum við líka fyrir góðgerðarsöfnun fyrir menntun stúlkna í Rúanda þar sem við náðum að safna um 50 þúsund Bandaríkjadölum. Það er nokkuð sem við getum hugsað okkur að gera meira af í framtíðinni.“

Fyrirsæta í yfirstærð er samkvæmt bransanum einhver sem er yfir 6 í bandarískum stærðum. Inga hefur starfað sem fyrirsæta í 15 ár en færði sig í þennan svokallaða „plus size“-flokk þegar hún var rúmlega tvítug.

Hún segist ekki hafa vitað mikið um þennan svokallaða „flokk“ innan fyrirsætugeirans þegar skrifstofan hvatti hana til færa sig yfir. Síðan þá hefur verið mikið að gera hjá Ingu, sem einnig er menntaður jógakennari og var einmitt í verkefni þegar Fréttablaðið náði af henni tali.

„Ég er í tökum fyrir Ralph Lauren en fyrirtækið hefur verið meðal minna dyggustu kúnna síðustu ár. Það var mjög frelsandi að fara yfir í þennan flokk, pressan minnkaði og ég gat hætt að fara í stranga megrunarkúra fyrir hvert verkefni.“

Inga segir ekki margar fyrirsætur í yfirstærð hafa fengið að ganga tískupallana á tískuvikunum en það sé næsta markmið hópsins. „Ég gæti vel hugsað mér að koma til Íslands og taka þátt í Reykjavík Fashion Festival á næsta ári ef áhugi er fyrir því. Það tekur langan tíma að breyta þessum hefðbundnu ímyndum sem fólk hefur af fyrirsætum en við erum tilbúnar að taka slaginn í rétta átt.“ 

Hægt er að fylgjast með hópnum á Instagram hér. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×