Lífið

Matreiða kjötsúpu í nýjum matsöluvagni

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Þeir bræður Benjamín Ágúst og Gabríel Þór verða í Mæðragarði á morgun kl. 12 með sjóðandi heita kjötsúpu. Þeir sem ekki vilja súpu geta fengið sér bragðgóða beyglu í staðinn.
Þeir bræður Benjamín Ágúst og Gabríel Þór verða í Mæðragarði á morgun kl. 12 með sjóðandi heita kjötsúpu. Þeir sem ekki vilja súpu geta fengið sér bragðgóða beyglu í staðinn. fréttablaðið/daníel
„Okkur langaði að bjóða fólki upp á holla, bragðgóða, mettandi, fljótlega og ódýra máltíð en þessi skilyrði voru grunnurinn að hugmyndinni,“ segir Gabríel Þór Gíslason, en Gabríel og bróðir hans, Benjamín Ágúst, selja hungruðum miðbæjargestum ekta íslenska kjötsúpu í matsöluvagni sem þeir keyptu á dögunum. Bræðurnir tóku sér góðan tíma í að finna hina fullkomnu kjötsúpuuppskrift.

„Við vildum að súpan líktist þeirri kjötsúpu sem íslensk heimili búa til. Við prófuðum okkur áfram með um 100 súpur til þess að reyna að gera hana sem allra besta. Það tók alveg nokkra mánuði, en það var klárlega þess virði. Þegar því var lokið, fengum við virta matreiðslumeistara til að fara yfir hlutina. Þeir gáfu súpunni mjög góða dóma,“ segir Gabríel, en hann segir Benjamín alfarið sjá um matreiðsluna.

„Benni hefur viljað opna veitingastað frá því hann var fimm ára og er nú að láta drauminn rætast. Hann er búinn að þróa súpuna vel, er búinn að elda hana um 100 sinnum og hefur lagt mikla ástríðu í hana,“ segir Gabríel. Í skammtinum eru 140 grömm af fersku kjöti og fer skálin á 1.000 krónur. Matsöluvagninn sjálfan fengu þeir frá Hlöllabátum.

„Það var eins og vagninn hefði komið til okkar en ekki öfugt. Við vorum nýbyrjaðir að leita að vagni og ætluðum að panta hann að utan. Þá var þessi vagn auglýstur á netinu, við slógum til og viðskiptin gengu hratt og örugglega fyrir sig. Það þurfti rétt aðeins að lappa upp á hann og breyta svo hann hentaði súpurekstrinum en við fengum dygga hjálp við þá vinnu,“ segir Gabríel.

Bræðurnir segja að markmiðið sé að höfða til erlendra ferðamanna jafnt sem Íslendinga en vagninum verður lagt í Mæðragarði við MR á daginn og á Lækjartorgi á nóttunni. „Við opnum í hádeginu á morgun í Mæðragarði og verðum með 50% kynningarafslátt á milli klukkan 12 og 13. Það spáir frábæru veðri og því um að gera að kíkja á okkur og fá sér súpu eða beyglu en við verðum með beyglur handa þeim sem ekki leggja í súpuna,“ segir Gabríel hress að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.