Lífið

Time Inc. hótar að lögsækja íslenskt tímarit

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Soffía er stofnandi Nordic Style.
Soffía er stofnandi Nordic Style.
Bandaríska útgáfufyrirtækið Time Inc., eigandi tímaritanna InStyle, People og Sports Illustrated, hótar að lögsækja tímaritið Nordic Style. Telja forsvarsmenn Time Inc. að merki tímaritsins sé of líkt merki tímaritsins InStyle og gæti því valdið ruglingi hjá viðskiptavinum þess síðarnefnda.

„Það var mikið áfall þegar mér barst bréfið frá Time Inc.,vegna alvarleika hótunarinnar. Að því sögðu þá er áhugavert að gera sér grein fyrir að lítið sjálfstætt veftímarit, sem dreift er án endurgjalds, skuli vera þyrnir í augum útgáfufyrirtækisins,“ segir Soffía Theódóra Tryggvadóttir, aðalritstjóri Nordic Style.

Nordic Style er ókeypis veftímarit og blogg sem fjallar um tísku og hönnun frá Norðurlöndunum.

„Þó svo að við íhuguðum mikið að fara í hart þá varð niðurstaða okkar sú að það myndi ekki borga sig fyrir okkur, hvorki fjárhagslega né tímalega séð. Þess vegna neyðumst við til að þróa ímyndina upp á nýtt,“ segir Signý Kristinsdóttir, markaðsstjóri tímaritsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Time Inc. lögsækir íslenskt fyrirtæki. Árið 1981 höfðaði það lögsókn gegn Frjálsu framtaki hf. sem þá gaf út tímaritið Líf. Farið var fram á að nafni tímaritsins Líf yrði breytt, þar sem það væri of líkt nafni tímaritins Life, sem Time gefur út. Frjálst framtak hf. var sýknað í Héraðsdómi, en síðar dæmt til að breyta nafninu í Hæstarétti. Nafninu var breytt í Nýtt Líf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.