Lífið

Komin með samning í Los Angeles

María Birta og Elli Egils undirbúa flutninga til Los Angeles og þurfa að grisja fataskápinn.
María Birta og Elli Egils undirbúa flutninga til Los Angeles og þurfa að grisja fataskápinn.
Leikkonan og verslunareigandinn María Birta og kærasti hennar, Elli Egilsson, blása til allsherjarfatamarkaðar á sunnudaginn á Kexi Hosteli.

Parið er að koma sér fyrir í Los Angeles en verður hér heima í sumar þar sem María Birta er að bíða eftir atvinnuleyfi vestanhafs.

„Við erum komin með gullfallega íbúð í Hancock Park sem bíður eftir okkur, en við verðum heima næstu mánuðina. Ég er að vinna í að fá atvinnuleyfi úti sem tekur nokkrar vikur, en ég vildi líka koma heim og taka verslunina mína, Maníu, aðeins í gegn. Um leið og við lentum á landinu skelltum við okkur í smíðagallana og saman brutum við niður veggi og innréttuðum allt uppá nýtt. Ég ætla auðvitað að vinna mikið í versluninni sjálf í sumar, ég er búin að sakna þess smá á síðustu mánuðum, Laugavegurinn er svo yndislegur á sumrin.“

María Birta er komin með samning hjá umboðsskrifstofunni ROAR og bíður nú bara eftir að pappírarnir fari í gegn. „Elli vinnur mikið með tónlistarfólki og hönnuðum þarna úti og ég hef verið að funda. Svo erum við að vinna saman að smá leyniverkefni sem við getum ekki sagt frá strax.“

Á fatamarkaðnum verður til dæmis mikið af skartgripum á góðu verði og silkijakkar sem Elli hefur sankað að sér í gegnum tíðina og tímir varla að láta frá sér. „Við erum bæði smá kaupalkar og núna þegar við erum flutt inn saman kemst einfaldlega ekki allt fyrir. Við getum ekki flutt þetta með okkur út.“ Markaðurinn stendur frá 12-17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.