Lífið

Fyrsta vínylsafnplatan í 23 ár

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Haraldur Leví Gunnarsson, eigandi Record Records, gefur út fyrstu íslensku safnplötuna á vínyl í 23 ár.
Haraldur Leví Gunnarsson, eigandi Record Records, gefur út fyrstu íslensku safnplötuna á vínyl í 23 ár. mynd/ernir
„Eftir að hafa ráðfært mig við aðra reynslubolta í bransanum, þá Eið Arnarsson og Jónatan Garðarsson, kom í ljós að þeir voru báðir nokkuð vissir um að síðasta íslenska safnplatan, sem kom út á vínyl, hafi verið Bandalög 4, sem kom út árið 1991. Þetta er því fyrsta íslenska safnplatan sem kemur út á vínyl í 23 ár,“ segir Haraldur Leví Gunnarsson, eigandi Record Records, sem gaf á dögunum út plötuna This Is Icelandic Indie Music Vol. 2.

Um er að ræða aðra skífuna í útgáfuröðinni This Is Icelandic Indie Music. Sú fyrsta kom út vorið 2013 og tróndi hún á topp tíu listanum yfir mestu seldu plötur á Íslandi í marga mánuði, enda hefur hún selst í fimm þúsund eintökum.

„Ferðamennirnir eru óðir í þetta enda er þetta virkilega eigulegur pakki af íslenskri músík,“ bætir Haraldur við.

Fyrirtækið hefur verið iðið við að gefa út plötur á vínyl undanfarin ár. „Það er aukin sala í vínyl, þannig að vínylútgáfan er alveg farin að svara kostnaði enda eigulegur gripur.“

Allir flytjendurnir á plötunni gefa út tónlist sína hjá Record Records og eru þeir þrettán talsins sem eiga lög á skífunni en hún er fáanleg á geisladisk, vínyl og á stafrænu formi. Áþreifanlegu eintökin verða eingöngu fáanleg á Íslandi og í gegnum heimasíðu Record Records. Á meðal flytjenda eru Mammút, Agent Fresco, Vök og Lay Low, svo nokkrir séu nefndir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.