Lífið

Eiga á hættu að klára sjóinn

Erpur Eyvindarson, eða Blaz Roca, ætlar að skemmta sjóurum hressilega í kvöld ásamt stórskotaliði.
Erpur Eyvindarson, eða Blaz Roca, ætlar að skemmta sjóurum hressilega í kvöld ásamt stórskotaliði. vísir/stefán
„Tónlistin mín er auðvitað bara samansafn af sjómannasöngvum,“ segir Erpur Eyvindarson, betur þekktur sem Blaz Roca en hann kemur fram ásamt Joey D, Clanroca og Bjarnabófunum á Kantinum í Grindavík í kvöld. Um er að ræða árlegan viðburð en undanfarin ár hefur sérstakur sjóaradrykkur vakið mikla athygli á þessari árlegu skemmtun.

„Drykkur hússins er vodka í sjó, hann er svo vinsæll að menn óttast það helst að bæði vodkinn og sjórinn klárist,“ bætir Erpur við glaður í bragði.

Hann hefur komið fram á þessari sjómannadagsskemmtun í Grindavík frá því hann man eftir sér. „Ég hef spilað þarna á hverju einasta ári síðan ég veit ekki hvenær, enda er ég kominn af mikilli sjóaraætt.“

Erpur er vel kunnugur sjónum og var til að mynda leiðsögumaður fyrir nemendur Stýrimannaskólans á Kúbu fyrir skömmu. „Ég þekki þetta vel, við áttum góðar stundir saman á Kúbu.“

Fyrr um daginn fer fram keppnin um hver sé sterkasti maður Íslands. „Það verður pottþétt eitthvert tilboð af mysudrykkjum fyrir öll vöðvafésin á staðnum,“ bætir Erpur við léttur í lundu.

Hann lofar mikilli stemningu og ætlar að flytja öll sín þekktustu lög með miklu stórskotaliði en gleðin hefst um miðnætti á Kantinum í Grindavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.