Lífið

List sem hægt er að ganga í

Baldvin Þormóðsson skrifar
Haraldur Jónsson hefur unnið mikið með samspil líkamans við heiminn og umhverfið.
Haraldur Jónsson hefur unnið mikið með samspil líkamans við heiminn og umhverfið. MYND/Baldur Kristjánsson
„Þetta er allt handgert og unnið í sameiningu,“ segir fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson en hann vinnur nú að fatnaði ásamt myndlistarmanninum Haraldi Jónssyni. „Þetta er svona myndlistartískublanda,“ segir Guðmundur en tvíeykið silkiprentar grafík sem Haraldur gerir á buxur sem Guðmundur hannar.

„Það er spennandi að tefla saman þessum tveimur heimum myndlistar og tísku og sjá hvað gerist. Það er fallegur árekstur“ segir Haraldur um samstarfið. „Hugmyndin fæddist eiginlega á vinnustofunni minni,“ segir listamaðurinn sem hefur verið að vinna mikið með samspil líkamans við heiminn og umhverfið. „Það var eiginlega uppsprettan að verkinu, samskiptamunstur okkar og hvernig við erum í hverju einasta skrefi að taka ákvörðun um hvað við ætlum að gera næst.“

Samstarfsmennirnir hafa unnið að verkefninu í tvo mánuði og ætluðu að sýna afraksturinn í sumar en ákváðu að halda sýninguna frekar á sama tíma og Listahátíð Reykjavíkur er í fullum gangi og bjóða því til veislu í verslun Guðmundar, JÖR, næsta fimmtudag klukkan sex.

„Það verður innsetning í búðinni, og smá partí,“ segir Guðmundur en tískuáhugafólk getur glaðst yfir því að gallabuxurnar umtöluðu verða til sölu.

„Fólk getur keypt buxurnar í mjög takmörkuðu upplagi, það verða bæði dömu- og herragallabuxur,“ segir fatahönnuðurinn og bætir því við að þetta sé kjörið tækifæri til þess að kaupa sér list sem hægt er að ganga í. „Svo er líka hægt að ramma þær inn og hafa þær upp á vegg, svona eins og á Hard Rock.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.