Lífið

Ástríðubakari og öðruvísi neglur

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Lífið kíkir á hvað er vinsælt á hinum ýmsu samfélagsmiðlum en þar kennir ávallt ýmissa grasa.

Lexi Martone

Naglahönnuðurinn Lexi Martone er afar duglegur á Instagram og virðist ímyndunarafli hans engin takmörk sett. Á síðunni eru hundruð mynda af fallegum, flippuðum, skrítnum og öðruvísi nöglum sem eru hver fyrir sig eins og listaverk. Það er því um að gera að kíkja inn á þessa litríku síðu og fá hugmyndir fyrir sumarið.

Emily Henderson

Emily Henderson bar sigur úr býtum í þáttunum Design Star á sjónvarpsstöðinni HGTV árið 2010 og stjórnar einnig þættinum Secrets From a Stylist á stöðinni. Á Pinterest-síðu hennar má finna alls kyns skemmtilegar hugmyndir fyrir heimilið sem og sniðug verkefni sem flestir ættu að geta dundað sér við heima fyrir.

Apartment Therapy

Eins og nafn Facebook-síðunnar gefur til kynna er þetta eins konar meðferðarsíða fyrir heimilið. Á síðunni er að finna alls kyns ábendingar fyrir lesendur um hvernig er hægt að koma skipulaginu í lag á heimilinu og gera það bæði fallegt og heilsubætandi. Þá er líka boðið upp á ráð til að gera sem mest með létta pyngju.

Passion for Baking

Hin norsk-hollenska Manuela Kjeilen er fimm barna móðir, bakari, bloggari, rithöfundur og ljósmyndari sem elskar að baka. Hún heldur úti blogginu Passion for Baking þar sem er að finna aragrúa af ljúffengum uppskriftum. Það er leikur einn að baka eftir uppskriftum Manuelu því hún býður líka upp á myndastuðning þar sem hún fer yfir ferlið skref fyrir skref. Ekki skemmir fyrir að síðan er eins og konfekt fyrir augað og greinilegt að Manuela er afar lunkinn ljósmyndari.

Manuela er einnig með YouTube-rás þar sem hún sýnir lesendum sínum réttu handtökin. Bloggið hennar var valið það vinsælasta í Noregi árið 2011 og hún hefur einnig gefið út nokkrar bækur á norsku, sænsku og þýsku. Fyrsta bókin hennar á ensku er væntanleg. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.