Lífið

Framleiða seríu um kvenfanga á Íslandi

Árni Filippus
Árni Filippus Mynd/Baldur Kristjánsson
„Við erum að þróa þáttaröð um lífið innan veggja kvennafangelsis,“ segir Árni Filippus, kvikmyndagerðarmaður og einn eigenda framleiðslufyrirtækisins Mystery, en leikkonurnar Nína Dögg Filippusdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir, Jóhann Ævar Grímsson og Margrét Örnólfsdóttir vinna nú hörðum höndum að þróun handritsins, sem Árni og meðeigandi Mystery, Davíð Ólafsson, hyggjast framleiða.

„Vinnuheitið er Fangar, þótt ekkert sé skrifað í stein. Unnur Ösp og Nína Dögg hafa verið að þróa verkefnið í dágóðan tíma og við erum á fullu í handritsskrifum um þessar mundir,“ útskýrir Árni.

Fangar fjallar um kvenfanga sem sitja inni í íslensku kvennafangelsi.

Unnur Ösp og Nína Dögg
Þetta er saga um mæður og dætur og konur sem sitja inni og aðstæður þeirra í fangelsinu. Þá er farið út í hvað það var sem kom þeim í fangelsi og hvaða möguleika þær eiga þegar þær sleppa úr fangelsi. 

„Hugmyndin er meðal annars að taka fangelsissögur burtu frá því sem maður sér svo oft – sem er saga karlmanna í fangelsi.“

Aðspurður segir Árni Fanga ekki líkjast hinni vinsælu bandarísku seríu Orange is the New Black sem einnig fjallar um kvenkyns fanga.

„Serían er dramatískari, tengist meira inn í borgina og varpar einnig ljósi á áhrifin sem fangelsisvistin hefur á fjölskylduna.“

Árni segist ekkert vilja staðfesta um leikaraval eða hver komi til með að leikstýra seríunni, en það er ekki ólíklegt að Unnur Ösp og Nína taki að sér hlutverk.

„Það hafa engir samningar verið gerðir við leikara eða leikstjóra og því ekkert sem ég get staðfest að svo stöddu,“ útskýrir Árni.

„Hugmyndin er að fara í tökur næsta haust. Serían er núna í sterkri uppbyggingu. Þetta er sterk sería sem við teljum eiga fullt erindi í sjónvarp landsmanna,“ segir Árni, sem er nýlentur á Íslandi eftir að hafa verið á kvikmyndahátíðinni í Cannes. 

„Ég var þarna í hópi 25 framleiðenda á uppleið frá Evrópu til að finna möguleika á samstarfi. Þetta er mikill stökkpallur fyrir framleiðendur og nú þegar lítur út fyrir að Mystery hafi fundið sér sterka samstarfsaðila í framtíðinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.