Lífið

Hátíð allra lista

Vera Einarsdóttir skrifar
Hlutverk Listahátíðar er annars vegar að styðja við og standa að tilurð nýrra verka og hins vegar að fá hingað brot af því besta sem gerist á hinu alþjóðlega listasviði.
Hlutverk Listahátíðar er annars vegar að styðja við og standa að tilurð nýrra verka og hins vegar að fá hingað brot af því besta sem gerist á hinu alþjóðlega listasviði. MYND/VILHELM
Listahátíð í Reykjavík er nú haldin í 28. sinn. Hún er hátíð allra lista en mikil fjölbreytni einkennir hátíðina í ár líkt og endranær. Hátíðin hefur frá upphafi verið stjörnum prýdd. Þá er rík áhersla lögð á frumflutning og frumsýningar bæði minni og stærri verka.

„Það eru ekki margar listahátíðir, hvorki hér né erlendis, sem ná yfir jafn víðfeðmt svið og Listahátíð í Reykjavík. Það er hennar sérstaða og stóri kostur, enda færist það í vöxt að listamenn leiti út fyrir sérsvið sitt í verkum sínum. Mörg viðamikil samstarfsverkefni á hátíðinni eru dæmi um það,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.

Störnum prýdd hátíð

Þessi mikla fjölbreytni Listahátíðar á rætur að rekja til upphafsára hátíðarinnar. „Hátíðin var sett á fót að frumkvæði þeirra Vladimirs Ashkenazy, heiðursforseta Listahátíðar og heiðursstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og Ivars Eskeland, sem þá var forstjóri Norræna hússins.

Ashkenazy hafði áhuga á því að koma á fót tónlistarhátíð og Eskeland menningarhátíð. Úr varð Listahátíð í Reykjavík sem var haldin í fyrsta skipti árið 1970 með ekki minni stjörnum en sellóleikaranum Jacqueline du Pré og hljómsveitinni Led Zeppelin. Vegna náinna tengsla Ashkenazys við hátíðina fyrstu árin varð strax mikill tónlistarfókus og í gegnum þau ríku tengsl sem hann hafði varð til hefð fyrir því að hingað kæmu tónlistarmenn, sem og listamenn á öðrum sviðum, í algerum sérflokki. Sú saga er ótrúleg og það er sú saga sem við byggjum á í dag,“ segir Hanna.

Brot af því besta

Hlutverk Listahátíðar er að sögn Hönnu tvíþætt. „Annars vegar að styðja við og standa að tilurð nýrra verka og þá fyrst og fremst tilurð nýrra íslenskra verka og hins vegar að fá hingað brot af því besta sem gerist á hinu alþjóðlega listasviði.“ Helsta tækifæri Listahátíðar í Reykjavík felst að sögn Hönnu í því að hún er hátíð allra lista en það markar henni jafnframt sérstöðu meðal íslenskra hátíða.

Fjölmörg samvinnuverkefni

„Í ár eru þó nokkur stór samstarfsverkefni á dagskrá þar sem listamenn úr öllum áttum koma saman. Þar má nefna River of Fundament, kvikmynd eftir myndlistarmanninn Matthew Barney og tónskáldið Jonathan Bepler. Þeir hafa unnið að gerð hennar í sjö ár.

Það sama á við um Der Klang der Offenbarung des Göttlichen, sem er samstarfsverkefni Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns og Kjartans Sveinssonar, fyrrverandi meðlims Sigur Rósar. Der Klang er leikhúsverk án leikara drifið áfram af leikmyndum Ragnars og tónlist Kjartans. Verkið er fullt af húmor. Það var frumsýnt í Berlín í febrúar og hefur verið uppselt á sýningar á verkinu síðan. Auk þess má nefna Píanó, sýningu í Listasafni Íslands þar sem píanóið er skoðað sem hljóðfæri og viðfangsefni tónskálda, tónlistarmanna, myndlistarmanna og danshöfunda,“ segir Hanna.

Hún segir eitt af einkennum hátíðarinnar í ár vera að tónlistin fer inn á listasöfnin og myndlistin inn á svið og í tónlistarsali svo dæmi séu nefnd. „Þetta á til dæmis líka við um opnunartónleika Kammersveitarinnar sem eru sviðsettir tónleikar í listrænni umgjörð Valerij Lisac, tónlistarmanns og leikstjóra.“

Ekki lokið

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Ekki lokið. Það vísar til hins listræna ferils í víðu samhengi; til hinnar stöðugu umbreytingar í ferli listamannsins og upplifun áhorfandans. Kynningarmyndir hátíðarinnar í ár, af píanóum í nýju og óvæntu samhengi, eru innblásnar af Piano Transplants bandaríska tónlistarskáldsins Anneu Lockwood en orðið transplant felur í sér umbreytingu og endurvinnslu, það að glæða eitthvað nýju lífi.

„Gjörningar Lockwood voru innblásnir af fyrstu vel heppnuðu hjartaígræðslunni í heiminum. Minn bakgrunnur er myndlist og það skiptir mig miklu máli að miðla innihaldi og inntaki hátíðarinnar með sjónrænum hætti. Við leggjum því mikla áherslu á að búa til myndefni sem tengist viðfangsefni hátíðarinnar hverju sinni í þeim tilgangi að miðla því. Hugmyndin er að gera yfirskriftina sjónræna,“ útskýrir Hanna.

Listahátíð í Reykjavík heldur tryggð við tvíþætt hlutverk sitt og dagskráin í ár endurspeglar það. Áhersla er lögð á frumflutning og frumsýningar bæði minni og stærri verka í bland við stærri klassísk verk. „Það eru þrír risavaxnir Eldborgarviðburðir á Listahátíð í vor. Flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þriðju sinfóníu Mahlers sem hljómar nú á Íslandi í annað sinn, einsöngstónleikar Bryns Terfel og einleikstónleikar Khötiu Buniatishvili píanóleikara. Á hátíðinni eru líka gersemar eins og Biðin og SAGA í Þjóðleikhúsinu, Wide Slumber í Tjarnarbíói, Í þínar hendur í Spark Design, Fantastar í Brimhúsinu, Lusus Naturae í Hafnarborg og margar aðrar,“ segir Hanna. 



Listahátíð er fyrir allra 

Hanna segir mikinn fjölda viðburða á Listahátíð jafnan vera utan miðasölu og er opnunarverk Högna Egilssonar, sem verður flutt með kirkjuklukkum í miðborginni í dag klukkan 17.30, stærsti viðburðurinn af þeim toga þetta árið. „Þetta er mjög mikilvægt hlutverk hátíðarinnar enda viljum við að sem flestir njóti hennar, óháð efnahag. Við höfum auk þess boðið ýmsa afslætti af miðaverði og á heimasíðunni www.listahatid.is og á skrifstofu Listahátíðar er hægt að fá nánari upplýsingar um það,“ upplýsir Hanna og hvetur alla til að kynna sér dagskrána.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.