Lífið

„Þetta alvöru pönkrokk-element“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Strákarnir í Grísalappalísu eru trúir sjálfum sér og halda pönkrokk-elementinu.
Strákarnir í Grísalappalísu eru trúir sjálfum sér og halda pönkrokk-elementinu. mynd/magnús andersen
„Þetta er fyrsta smáskífan af nýju plötunni okkar,“ segir Gunnar Ragnarsson, söngvari hljómsveitarinnar Grísalappalísu sem frumsýnir nýtt tónlistarmyndband við lagið ABC í Stúdentakjallaranum í kvöld.

„Myndbandinu leikstýrði hann Sigurður Möller Sívertsen sem hefur verið að sjá um myndböndin okkar ásamt Heimi Gesti, þeir eru svona kombóið,“ segir Gunnar en tvíeykið virðist vinna vel saman þar sem tónlistarmyndband við lag hljómsveitarinnar Hver er ég? var valið myndband ársins 2013 á íslensku tónlistarverðlaunahátíðinni.

Nýja platan hefur hlotið nafnið Rökrétt framhald og kemur út 17. júní næstkomandi á sjötíu ára afmæli lýðveldisins. „Við erum búnir að vera að semja í dálítinn tíma, við tókum hana síðan upp í febrúar,“ segir Gunnar en strákarnir í hljómsveitinni einbeittu sér að því að halda sama sándi og á fyrstu plötunni en Gunnar segir sveitina þó vera að færast í fágaðri, poppaðri átt.

„Við tókum mikið af henni upp „live“ og reyndum að minnka almenna vinnslu eins og við gátum,“ segir söngvarinn.  „Við vildum halda í það að þetta væri hljómsveitin að spila á sama tíma. Þetta alvöru pönkrokk-element.“

Eins og áður hefur komið fram þá verður tónlistarmyndbandið frumsýnt í Stúdentakjallaranum í kvöld klukkan átta og mun hljómsveitin í kjölfarið stíga á svið og flytja nýtt efni af væntanlegri plötu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.