Lífið

Stærsti viðburðurinn utan Samfés

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Bjarni Hallgrímur og Grímur Óli skipuleggja stærðarinnar góðgerðartónleika fyrir unglinga.
Bjarni Hallgrímur og Grímur Óli skipuleggja stærðarinnar góðgerðartónleika fyrir unglinga. mynd/ Geir Ólafsson
„Við höfum verið að spila á grunnskólaböllum mjög stíft undanfarin ár en höfum þó tekið eftir því að það er ekkert mikið af viðburðum skipulagðir fyrir þennan aldurshóp nema Samfés. Þess vegna vildum við skipuleggja almennilegan viðburð fyrir krakkana,“ segir Bjarni Hallgrímur Bjarnason en hann, ásamt Grími Óla Geirssyni, skipuleggur stóra tónleika fyrir unglinga í áttunda til tíunda bekk sem haldnir verða í Kaplakrika. Þeir skipa einnig plötusnúðateymið og viðburðafyrirtækið Basic House Effect.

Þeir félagar segjast hafa fengið góð viðbrögð við uppátæki sínu en þeir hafa gengið með hugmyndina í kollinum í um þrjú ár. „Ég bjóst alveg við verri viðbrögðum frá til dæmis félagsmiðstöðvum og opinberum aðilum en allt hefur gengið vel,“ bætir Bjarni við.

Þá hafa þeir einnig birt bréf til foreldra á vefsíðu sinni til þess að foreldrar geti kynnt sér viðburðinn vel.

Þeir hafa einnig skipulagt keppni fyrir unglingana til að hvetja tónlistaráhugann. „Við erum með dj-keppni, krakkar geta skráð sig í hana og sent okkur mix og svo verðum við með dómnefnd skipaða þekktum plötusnúðum sem velur sigurvegarann.“ Sigurvegarinn kemur svo fram á tónleikunum ásamt fjölda þekktra listamanna, en Páll Óskar, Friðrik Dór og Steinar eru á meðal þeirra sem fram koma.

Allur ágóði tónleikanna, sem haldnir verða 12. júní, verður gefinn til Barnaspítala Hringsins og Rauða krossins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.