Lífið

Hélt að hann myndi deyja 26 ára

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Jónas útilokar ekki að halda afmælispartí í sumar eða haust.
Jónas útilokar ekki að halda afmælispartí í sumar eða haust. Vísir/Pjetur
„Mér finnst æðislegt að vera fertugur. Ég er svakalega ánægður með þetta,“ segir tónlistarmaðurinn og kerfisfræðingurinn Jónas Sigurðsson. Hann fagnar fertugsafmæli sínu í dag en sem barn trúði hann ekki að hann myndi ná þeim áfanga.

„Þegar ég var sirka ellefu ára var ég viss um að ég myndi deyja fyrir 26 ára aldur. Þá las ég Spádóma Nostradamusar og þar sagði að kjarnorkustríð myndi geisa árið 1999. Ég las þessa bók á Bókasafni Þorlákshafnar og var viss um að þetta myndi rætast og ég myndi ekki lifa lengur,“ segir Jónas og er þessi minning sem greypt í minni hans.

„Ég lá rosalega oft andvaka á nóttunni í angist og mamma og pabbi reyndu að sannfæra mig um að þetta væri ekki rétt. Þannig að hvert ár umfram 26 ára er bara bónus fyrir mig.“

Jónas ætlar að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar en hann á tvö börn með eiginkonu sinni, Áslaugu Hönnu.

„Ég nennti ekki að halda partí núna heldur langaði mig bara að slaka á með fjölskyldunni og njóta þessa dags. En ég stefni á að halda rosalegt afmælispartí í sumar eða haust. Ég á uppkomin börn sem ég lít á sem tvo yndislega vini. Það er æðislegt. Þegar ég lít til baka hefði ég stundum verið til í að vera þroskaðri þegar ég varð faðir en sem betur fer lærði ég af því að hoppa út í djúpu laugina.“

Spurður um hvað standi upp úr á þessum fjörutíu árum stendur ekki á svörunum.

„Fyrir utan fjölskylduna finnst mér standa upp úr þegar ég lít yfir farinn veg að hafa náð einhverri lendingu. Ég get ekki lýst því betur. Þegar ég var þrítugur fannst mér ég eiga mikið eftir og að ég ætti eftir að gera svo margt. Mér fannst ég vera orðinn svo seinn og að tónlistarferillinn væri búinn. Mér fannst ég ekki hafa framkvæmt nógu mikið í músíkinni. Síðan fór ég að framkvæma og síðustu ár hef ég verið mjög virkur. Það finnst mér standa upp úr – að fylgja sinni köllun. Það er aldrei of seint.“

Þegar Jónas var um tvítugt gerði hann garðinn frægan í hljómsveitinni Sólstrandargæjunum. Síðar flutti hann til Danmerkur og vann sem kerfisfræðingur í Danmörku.

„Þá var ég búinn að labba frá tónlistinni og mér leið ekki vel með það. Nú er ég orðinn fertugur og kominn heim.“

Jónas vinnur enn sem kerfisfræðingur, nú hjá Gagnavörslunni í Hafnarfirði.

„Ég einsetti mér þegar ég kom að utan að vinna með sprotafyrirtæki. Forritun er rosalega skapandi, sérstaklega, finnst mér, í frumkvöðlafasa. Þessi vinna fer svakalega vel saman við tónlistina. Það er ákveðin jarðtenging í forritun og mikið af lifandi og skemmtilegu fólki – líkt og í tónlistinni. Þetta eru tveir ótrúlega skemmtilegir heimar og gaman að fara á milli þeirra því þá kem ég alltaf ferskur til baka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.