Önnur umræða um frumvarp ríkisstjórnarinnar um séreignarsparnað hófst á Alþingi síðdegis í gær og stóð fram eftir kvöldi.
Í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar segir að frumvarpið feli í sér hvata til aukinnar vinnu og sparnaðar. Til lengri tíma litið muni aukning sparnaðar koma fram í því að fólk eignist meiri hlut en ella í fasteignum sínum. Með frumvarpinu sé komið til móts við heimilin í landinu með almennum aðgerðum án þess að fórna sjálfbærni og stöðugleika við stjórnun ríkisfjármála.
Minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar segir að úrræðið muni hvetja þá sem ekki spara í séreign til að hefja slíkan sparnað. Að öðru leyti sé óvíst hvort úrræði frumvarpsins muni hafa aukinn sparnað í för með sér. Þá er varað við efnahagslegum afleiðingum frumvarpsins og minnihlutinn gagnrýnir að ákvæði um séreignarsparnað nýtist þeim sem hærri hafa tekjurnar mun betur en hinum tekjulágu.
Þingstörf gengu hratt fyrripart dags í gær. Níu þingsályktunartillögur voru samþykktar, þar má nefna þingsályktunartillögu um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusveppa og tjóns af þeirra völdum. Mikill samhljómur var í atkvæðagreiðslunni en hún var samþykkt af 58 þingmönnum.
Tillagan er um að umhverfis- og auðlindaráðherra skipi starfshóp sem taki til heildstæðrar endurskoðunar lög og reglur á sviði byggingarmála með tilliti til myglusveppa og þess tjóns sem þeir geta valdið.
Af öðrum tillögum má nefna að samþykkt var þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun 2014 til 2017 auk stuðnings við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.
Þá voru greidd atkvæði um mörg frumvörp ríkisstjórnarinnar að lokinni annarri umræðu.
Lokaspretturinn á Alþingi
Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
