Lífið

Tískuheimurinn er harður og hraður

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Andrea útilokar ekki að opna aðra verslun í Reykjavík á næstu árum.
Andrea útilokar ekki að opna aðra verslun í Reykjavík á næstu árum. Vísir/Vilhelm
„Ég ætlaði alltaf í tísku. Ég útskrifaðist úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 1995 og vissi í raun ekki alveg hvað ég átti að gera eftir það. Viðskiptafræði og sálfræði voru efst á blaði en fatahönnun var eitthvað sem var ekki í boði á þessum tíma og margir sögðu við mig að ég myndi aldrei lifa af því,“ segir fatahönnuðurinn Andrea Magnúsdóttir. Hún lét þessar raddir ekki trufla sig, sótti um vinnu í versluninni Kókó og áður en langt um leið var hún komin í draumastarfið.

„Þar var ég í essinu mínu. Ég var komin heim. Ég man þegar ég fór fyrst í innkaupaferð til Parísar. Ég trúði því ekki að einhver væri að borga mér laun fyrir að kaupa föt í París. Mér fannst það geðveikt. Þetta var draumadjobbið.“

Eftir veruna í Kókó vann hún lengi hjá NTC, fyrst í versluninni Morgan og síðar í 17 en lengst af sem innkaupastjóri.

„Ég sé það alltaf betur og betur, eftir því sem ég eldist, hvað þetta var ótrúlega mikilvægur tími og hvað ég lærði mikið. Ég segi við alla sem hafa áhuga á fatahönnun og tísku að prófa að vinna í fataverslun eða fyrirtæki tengdu tísku því maður lærir rosalega mikið af því. Ég eignaðist marga dýrmæta vini og ómetanlega reynslu. Mér þykir mjög vænt um þessi ár,“ segir Andrea.

Útskrifaðist með hæstu einkunn

Andrea stofnaði síðan verslunina Júníform ásamt vinkonu sinni, Birtu Björnsdóttur, en árið 2007 ákvað hún að láta langþráðan draum rætast og flytja til Danmerkur.

„Ég átti draum að flytja út og maðurinn minn líka. Það var draumur sem ég þurfti að klára. Ef ég hefði ekki flutt út þarna væri ég enn að pæla í því. Eftir því sem ég vann meira við tísku, hannaði meira og saumaði meira þá langaði mig alltaf að læra meira.

Ég fór í fatahönnun í Margrethe-skolen í Kaupmannahöfn en hann í arkitektúr í The Royal Academy of Fine Arts.

Á meðan á náminu stóð unnum við saman að því að koma merkinu AndreA á laggirnar, hanna lógó, vefsíðu, finna framleiðendur og svo framvegis. Í desember 2008 opnuðum við síðan vefverslunina í Kaupmannahöfn og vorum tilbúin með litla línu sem við seldum þar,“ segir Andrea sem útskrifaðist með hæstu einkunn sumarið 2009. Um haustið opnaði hún síðan verslun á Strandgötu í Hafnarfirði.

Fjögurra mánaða á tískuvikuna

Andrea rekur fyrirtæki sitt með eiginmanni sínum, Óla. Saman eiga þau tvö börn, dreng sem er fimmtán ára og stúlku sem er átta ára. Hún segir samstarf þeirra hjóna ganga eins og smurð vél. 

Óli er grafískur hönnuður og arkitekt og hann sér alveg um reksturinn. Ég hanna fötin og er í versluninni og hann sér um allt hitt. Við vinnum saman allan daginn en erum ekkert endilega hvort ofan í öðru. Á milli okkar ríkir fullkomið traust. Við hugsum alltaf um þetta sem fjölskyldufyrirtæki og ákváðum frá upphafi að leyfa börnunum okkar að vera með. Dóttir mín fór fjögurra mánaða á fyrstu tískuvikuna sína í Kaupmannahöfn og fyrir tveimur árum tók ég son minn með mér í vinnuferð til Parísar. Mér finnst hollt að þau viti hvað foreldrar þeirra gera.“

Veit hvaðan efnin koma

„Þetta er harður og hraður heimur,“ segir Andrea þegar talið berst að tískubransanum. „Maður verður að hafa sig allan við til að vera með. Það er stanslaus þróun á öllum sviðum, hvort sem það er í efni eða tækni. Við erum dugleg að fara utan á sýningar og kynna okkur nýjungar,“ bætir hún við. 

„Ég kaupi mest af efnum á Ítalíu og yfirleitt eru þau efni framleidd á Ítalíu. Eins kaupum við frá Asíu en þeir eru risar á þessum markaði.

Mér finnst skipta máli að vita hvaðan efnin koma. Mér finnst að við þurfum öll að pæla í umhverfi okkar. Við þurfum öll að gera eitthvað smá. Því ef við gerum öll eitthvað smá þá kannski gerist eitthvað stórt í heildarmyndinni. Það verður engin alheimsbreyting bara hjá einum efnaframleiðanda. Við þurfum líka að vanda valið. Ekki kaupa hundrað skyrtur sem við notum ekki heldur bara eina sem við notum. Alveg sama hvort flíkurnar eru dýrar eða ódýrar. Ég þoli ekki að kaupa eitthvað sem ég nota ekki því það er bara sóun.“

Andrea ásamt börnunum sínum tveimur - Magnúsi og Ísabellu.Mynd/einkasafn
Ættum að hlúa vel að greininni

Andrea hefur ferðast um allan heim, sótt tískusýningar hjá heimsfrægum hönnuðum og er mjög ástríðufull þegar kemur að tískubransanum.

„Ég elska þennan heim. Ég get fengið gæsahúð og tár í augun þegar ég sé til dæmis geðveikan kjól á sviði á flottri sýningu. Þetta er náttúrulega risastór iðnaður og mér finnst við stundum gleyma því hér á Íslandi. Margir líta á þetta eins og eitthvert föndur. Við erum frekar aftarlega á merinni hvað það varðar en þetta er allt að koma. Það er svo stutt síðan Listaháskóli Íslands byrjaði að útskrifa klára fatahönnuði og ég hlakka til að sjá hvað við náum að gera í þessum bransa. Linda Björg Árnadóttir, lektor fatahönnunardeildarinnar, er að gera frábæra hluti þar. Ég held að við ættum að hlúa vel að þessari grein því það eru fjölmörg tækifæri í henni. Íslendingar eiga fullt erindi í þennan heim.“

Maður kaupir ekki virðingu

Aðspurð um framtíð sína í tískubransanum segist Andrea vera rétt að byrja.

„Mig dreymir stóra drauma fyrir mig. Ég veit hvernig ég vil að merkið AndreA sé og ég er bara að taka lítil skref í áttina að því. Þú getur ekki byrjað á endanum, þú byggir þetta ekki á einni nóttu. Ég byrjaði smátt og nú er ég að verða fimm ára. Mér er sagt að eitt prósent fyrirtækja í þessum bransa nái því þannig að ég er mjög stolt,“ segir Andrea sem er mjög skynsöm að eðlisfari.

„Við eigum allt sem fyrirtækið á og höfum ekki tekið nein lán. Ég safnaði fyrir fyrstu saumavélinni og þegar ég var búin að því safnaði ég fyrir þeirri næstu og svo koll af kolli. Ég get alltaf gert meira á hverju ári og mjakast hægt og rólega nær markmiði mínu um hvernig ég sé merkið. Ég veit hvernig ég vil hafa mitt merki burtséð frá því hvað það er selt í mörgum verslunum í heiminum. Auðvitað hef ég áhuga á að selja erlendis. Ég hef fengið fyrirspurnir að utan en ég þarf að vera tilbúin og eiga fjármagn til að skila af mér vörunum. 

Þetta er langhlaup, ekki spretthlaup. Ég held að þetta sé ævistarfið mitt og ég er bara fimm ára. Kannski eftir fimmtíu ár verður fyrirtækið mitt á toppnum og ég töff, gömul gella í síðum kjól og læt aðra um að hanna fötin. Sjáið bara Diane von Furstenberg. Hún er æði. Hún var aðalpæjan í Studio 54 í den og núna er hún 68 ára og er enn aðalpæjan. Þetta er ævistarfið hennar og það var margra ára vinna fyrir hana að öðlast virðingu fólks. Maður getur ekki keypt sér virðingu.“

„Stelpurnar í vinnunni. Myndin er tekin á saumastofunni."
Þrífst á að hugsa um óskalistann

Andrea leyfir sér aldrei að hætta að dreyma.

„Það er svo gott að láta sig dreyma. Mér finnst gaman að gera óskalista og ég þrífst á því að hugsa um hann. Mig langar samt aldrei að klára allt á listanum. Hvað ætti ég að gera þá? Ég veit hvert ég ætla og síðan get ég alltaf bætt aftan á listann.“

Hún segist samt oft fá bakþanka þegar kemur að rekstrinum. 

„Ég hugsa alltaf um að hætta einu sinni í mánuði. Það kallast fyrirtíðaspenna,“ segir Andrea á léttu nótunum. „Suma daga hugsa ég með mér hvort ég geti þetta og aðra daga er ég full af eldmóð og finnst ég geta allt. Þetta er erfitt. Ég þarf að passa vel upp á mig til að ég geti þetta. Ég vinn mikið og ég er mikið með fjölskyldunni. Sumt læt ég sitja á hakanum því maður verður að velja og hafna. Ég læt mig fara að sofa þótt ég gæti vel vakað til þrjú, ég reyni að fara í sund á morgnana, ég fer eiginlega aldrei út á lífið. Til að allt gangi upp þarf ég fyrst og síðast að vera í lagi.“

Andrea og Óli í vinnunni.
Íslenskar konur flottar og sjálfstæðar

Andrea hefur ekki farið varhluta af því að fólk hefur tekið sig til og apað eftir hönnun hennar. Hún lætur það ekki á sig fá. 

„Það er bara þannig og það verður örugglega alltaf þannig. Ég ákvað að láta það ekki trufla mig og ég pæli ekki einu sinni í því. Ég reyni bara að gera mitt besta – hinu get ég ekki stjórnað.“

Henni finnst íslenskar konur óhræddar við að prufa sig áfram þegar kemur að tísku.

„Mér finnst íslenskar konur upp til hópa rosalega flottar, duglegar og sjálfstæðar. Flott kona getur verið alls konar. Ég held að sjálfstraustið sé alltaf stærsti parturinn, alveg sama hvernig konur eru í laginu. Besta vinkona mín, Sara Reginsdóttir, er til dæmis ein flottasta kona landsins að mínu mati. Hún er jafn falleg að innan sem utan. Hún er með útgeislun, alveg sama í hvaða fötum hún er. Hún er gott dæmi um konu sem er flott. Ég gæti talið lengi hvað ég þekki margar flottar konur sem eru ólíkar en flottar á sinn hátt.“

„Ég ætla að gera þetta núna“

Andrea stendur á vissum tímamótum núna því í næstu viku heldur hún sína fyrstu tískusýningu undir sínu eigin merki. Síðustu dagar og vikur hafa einkennst af gríðarlega mikilli vinnu og þótt hún hafi verið fjöldamörg ár í bransanum finnur hún alltaf fyrir stressi.

„Ég þarf að vanda mig að vera ekki stressuð því ég get alveg fengið kvíða og orðið mjög stressuð. Ég er ekki óörugg en ég geri miklar kröfur. Fyrst og síðast verð ég að vera ánægð með sýninguna. Þannig er ég bara gerð. Mér finnst eins og ég sé búin að skipuleggja heilt brúðkaup eða eitthvað enn þá stærra. Það koma svo margir að einni svona sýningu – förðunarfólk, hárgreiðslufólk, stílistar, hljóðmenn, fyrirsætur. Listinn er endalaus. Svo er sýningin bara tólf mínútur. Allt í einu er þetta allt búið,“ segir Andrea. Vanalega sækir hún innblástur úr öllu í sínu daglega umhverfi en nýja línan sem hún sýnir á tískusýningunni er mestmegnis innblásin af einu lagi. 

„Ég var komin með þema og byrjuð á rannsóknarvinnu þegar ég var að keyra á saumastofuna einn daginn og heyrði lagið I'm Coming Out með Diönu Ross í útvarpinu. Ég skipti um þema á stundinni. Þetta lag náði einhvern veginn bara svo til mín. Þannig að öll línan er pínulítið „seventies“. Textinn í laginu höfðaði líka svo mikið til mín. Hún segir: I'm coming out, I want to let it show. Mér finnst ég vera að koma út úr skápnum með þessa sýningu. Ég skildi textann þannig en kannski meinti hún hann öðruvísi. Ég er allavega tilbúin. Ég ætla að gera þetta núna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.