Lífið

Ekki lengur naktar konur í Lækjargötu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jóhanna Helgadóttir er eigandi nýs skemmtistaðar, Lavabarsins sem stendur í Lækjargötu.
Jóhanna Helgadóttir er eigandi nýs skemmtistaðar, Lavabarsins sem stendur í Lækjargötu. Vísir/Vilhelm
„Súlurnar eru allavega farnar út úr húsinu en við mokuðum þó ekki öllu út, við héldum ákveðnum hlutum áfram eins og glæsilegri ljósakrónu og þá er barinn enn á sama stað,“ segir Jóhanna Helgadóttir eigandi nýs skemmtistaðars sem nefnist Lavabarinn. Hann verður opnaður í Lækjargötu 6a í kvöld, þar sem strippstaðurinn Strawberries var áður til húsa.

Miklar aðgerðir hafa verið í gangi að undanförnu við að standsetja staðinn en mikið er lagt upp úr því að hafa hann stílhreinan og glæsilegan. „Staðurinn var allur málaður og svo höfum við sett hraun víðsvegar á staðnum til að skreyta, enda heitir staðurinn Lavabarinn,“ útskýrir Jóhanna.

Aðstaðan er til fyrirmyndar.Vísir/Vilhelm
Staðurinn leggur áherslu á gæðakokteila og verður svokölluð lounge-stemning ráðandi á efri hæð staðarins en dansgólf er á neðri hæðinni.

„Kári Sigurðsson sem er Íslandsmeistari barþjóna sér meðal annars um að blanda framandi kokteila. Við verðum einnig með heitustu New-RNB-beats músíkina og svo erum við stolt af nýja Funktion 1-hljóðkerfinu okkar.“

Á efstu hæð staðarins er svo einkaherbergi sem er hægt að leigja, en inni í því eru tvær flöskur, sér baðherbergi, sér dyravörður og lyfta sem afgreiðir drykkina beint til þeirra sem eru þar uppi.

„Það verður 25 ára aldurstakmark, pínu „dresscode“ og við ætlum ekki að pakkfylla staðinn. Það er svo nóg af klósettum þannig að fólk þarf ekki að bíða í hálftíma röð eftir klósettinu eins og á sumum öðrum stöðum,“ segir Jóhanna og hlær.

Formlegt opnunarpartí verður í kvöld klukkan 20.00. „Nöfn þeirra sem mæta í kvöld og yfir helgina verða skráð niður á lista hjá okkur og geta þessir einstaklingar komist fram fyrir í röð í ákveðinn tíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.