Innlent

Þrjár hliðar fyrir 300 milljónir

Freyr Bjarnason skrifar
Forstjóri Landspítalans segir að 4,4 milljarðar króna þurfi í bráðaviðhald.
Forstjóri Landspítalans segir að 4,4 milljarðar króna þurfi í bráðaviðhald. Fréttablaðið/GVA
Þrjú hundruð milljónir króna, sem Landspítalinn fékk í bráðaviðhald á byggingum sínum, verða að mestu notaðar í að lagfæra utanhúss eina hlið á hverri af þremur stærstu byggingunum.

„Þegar það er svo margt sem bíður þá er einfaldlega skoðað hvar lekur mest inn og þar er farið í viðgerðir,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. „Það á að ráðast í að laga hliðarnar fyrir þessar þrjú hundruð milljónir á þessu ári.“

Að sögn Páls er búið að reikna út að um 4,4 milljarða króna þurfi í bráðaviðhald á húsum spítalans. Þrjú hundruð milljónir fengust úr ríkissjóði fyrir þetta ár.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær leitar Landspítalinn leiða til að fjármagna endurnýjun húsnæðisins, enda voru 54 prósent þess byggð fyrir árið 1970. Gjörgæslan á Hringbraut er til að mynda í húsi sem byggt var á árunum 1926-1930. „Þú myndir ekki treysta barninu þínu í bíl sem er smíðaður 1930 en það þarf að leggjast inn á gjörgæslu á Landspítalanum sem er í þannig húsi,“ segir Páll. „Aðeins átta prósent af húsnæði spítalans hefur verið reist á síðustu 25 árum og því löngu orðið tímabært að endurnýja húsakostinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×