Lífið

Þjóðdans poppstjarna

Baldvin Þormóðsson skrifar
Alexander Roberts og Ásrún Magnúsdóttir eru fjölhæfir danshöfundar.
Alexander Roberts og Ásrún Magnúsdóttir eru fjölhæfir danshöfundar. vísir/stefán
„Þetta er sem sagt dansrannsókn sem snýr að hreyfigetu poppstjarna, við erum að rannsaka hreyfingar þeirra og hvert hlutverk hreyfingar sé innan tónlistarinnar,“ segir Ásrún Magnúsdóttir danshöfundur en hún vinnur að dansrannsókninni ásamt Alexander Roberts.

„Við erum að velta fyrir okkur hlutverki líkamans á sviði,“ segir Alexander. „Í tónlist þá einbeitum við okkur augljóslega að tónlistinni, en síðan er allt önnur vídd sem snýr að líkama tónlistarmannsins og nærveru hans á sviðinu.“

Verkefnið er ekki fyrsta rannsókn tvíeykisins en seinast rannsökuðu þau dansmenningu Reykvíkinga. „Hugmyndin að þessari rannsókn spratt svolítið út frá því,“ segir Ásrún.

„Við skoðuðum þær aðstæður þar sem líkaminn er oft hundsaður og bjuggum til eins konar þjóðdans Reykvíkinga, en núna vildum við taka fyrir nýjan hóp og sjá hver dans þeirra væri.“

Tuttugu mínútna tónleikar án hljóðs

Alexander og Ásrún hafa þegar hafið störf með einni af tveimur poppstjörnum sem taka þátt í rannsókninni. „Það var mjög áhugavert að sjá hvað hann var í raun meðvitaður um hreyfingar sínar og hafði pælt í þeim áður,“ segir Ásrún en verkið verður með því sniði að hver stjarna flytur tuttugu mínútna dansverk án hljóðs.

„Þetta eru í raun tónleikar með tónlistarmanninum nema hreyfingin er aðalatriðið,“ segir Alexander um dansverkið. „Þannig er grunnhugmyndin en síðan vitum við náttúrlega ekki hvort það sé algjör hörmung, það er hluti af rannsókninni,“ segir Ásrún og hlær.

Danstvíeykið ætlar sér þó að fara lengra með rannsóknir sínar á tengslum dans og tónlistar. „Við erum að búa til nokkra útvarpsþætti þar sem við skoðum mismunandi tónlistarstefnur og þær mismunandi hreyfingar sem fylgja hverri stefnu,“ segir Alexander.

„Núna erum við að skoða svonefndan slamm-dans sem fylgir pönki og skoða þær hreyfingar við þá tónlist,“ segir Alexander og verkefnið er því tvíþætt: „Annars vegar er það sýningin með poppstjörnunum og hins vegar útvarpsþátturinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.