Lífið

Á forsíðu eins virtasta fitness-tímarits heims

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Kristbjörg er að gera góða hluti í fitnessheiminum.
Kristbjörg er að gera góða hluti í fitnessheiminum. Mynd/Chris Bailey
„Það er mikill heiður að fá að vera í svona stóru og virtu blaði,“ segir Kristbjörg Jónasdóttir, keppandi í módelfitness, en henni bregður fyrir á forsíðu nýjasta tölublaðs hins virta heilsutímarits Muscle & Fitness. Muscle & Fitness er eitt af þekktustu og virtustu fitness- og heilsutímaritum í heimi, ásamt tímaritinu Flex.

Í blaðinu er sex blaðsíðna umfjöllun um Kristbjörgu. „Þeir höfðu samband og spurðu mig hvort þeir mættu hafa mynd af mér í dálki sem kallast Hottest Body of the Month, sem er í raun bara heilsíðumynd á síðustu blaðsíðu tímaritsins. Í kjölfarið hringdi svo ritstjórinn í mig og vildi gera meira úr þessu og taka viðtal við mig, ég hélt að þetta væri bara ein opna en þetta endaði sem sex blaðsíðna umfjöllun,“ útskýrir Kristbjörg.

Hún er þó reyndar á sjö blaðsíðum því Kristbjörg er einnig í auglýsingu í blaðinu. Umfjöllun í slíku blaði er auðvitað mikil og góð auglýsing fyrir Kristbjörgu.

Kristbjörg er hér uppi, hægra meginn á forsíðu tímaritsins.
„Þar var verið að fara yfir ferilinn minn og þá var einnig farið yfir mín framtíðarplön og svo fórum við yfir nokkrar af æfingunum.“

Fjallað verður um hana í ágústblaði tímaritsins Flex í sumar. „Þetta er skemmtilegt tækifæri, ég held þó að það verði ekki jafn umfangsmikil umfjöllun.“

Kristbjörg eyðir nánast öllum sínum tíma í æfingar og keppnir. „Ég er ekki atvinnumaður því ég er ekki með þetta „pro-card“ en þetta er samt í rauninni atvinnan mín því ég ferðast mikið með styrktaraðilum mínum,“ segir Kristbjörg, sem var að ljúka við mót í Leicester og lenti þar í öðru sæti.

Kærasti Kristbjargar er knattspyrnukappinn Aron Einar Gunnarsson, stýrir þú eldamennskunni á ykkar heilsuríka heimili? „Hann greyið fær ekkert að borða nema eitthvað mjög hollt,“ segir Kristbjörg og hlær og bætir við: „Hann er duglegur að elda en fær samt voða litlu ráðið um hvað er í matinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.