Lífið

Raftónlistar-ævintýri

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Árni Grétar, betur þekktur sem Futuregrapher, heldur utan um verkefnið.
Árni Grétar, betur þekktur sem Futuregrapher, heldur utan um verkefnið. Fréttablaðið/Daníel
„Við hjá Möller Records munum nota styrkinn til að taka túr um landið og kynna hugljúfa raf- og sveimtónlist fyrir landi og þjóð,“ segir Árni Grétar, betur þekktur sem raftónlistarmaðurinn Futuregrapher, en útgáfufyrirtækið Möller Records hlaut styrk úr tónlistarsjóði Kraums upp á hálfa milljón króna í verkefnið „Möller um landið“.

Nokkrir tónlistarmenn taka þátt í verkefninu, en ásamt Futuregrapher eru það Steve Sampling, Bistro Boy og tónlistarmaðurinn Árni Vector.

„Fleiri raftónlistarmenn munu svo koma til með að taka þátt. Við munum fara hringinn – alvöru hringinn, því við förum að sjálfsögðu á Vestfirði,“ segir Árni Grétar, léttur í bragði.

Aðspurður segir Árni það mikilvægt fyrir komandi kynslóðir úti á landi að kynnast raftónum og flæði.

„Þetta er sannkallaður heiladans og fær líkama okkar og huga af stað. Ég ólst upp á Tálknafirði og þar voru ekki margir sem hlustuðu til dæmis á sveimtónlist, eða ambient, og það var kannski bara af því að það var ekkert í boði. Maður þurfti að leita að alvöru sveimi í bænum og koma með heim vestur á firði. Svo held ég að það sé bara gaman fyrir fólk að kynnast þessu og upplifa. Og dansa.“

Árna hefur lengi langað út á land með raftónleikatúr, en aldrei látið verða af því.

„Við í Möller höfum talað um það að gera svona Með-allt-á-hreinu í raftónlist. Þetta verður eitthvað þannig ævintýri,“ bætir hann við og segir raftónlist í uppáhaldi hjá sér og sínu fólki.

„Það er ekkert betra en brotnir taktar, djúpur bassi og vel sykruð melódía með dassi af depurð og smá vonarneista. Það má segja að raftónlist sé ég og ég sé raftónlist. Þetta er mitt líf. Ég lærði á gítar og saxófón, en þegar ég áttaði mig á því að ég gæti spilað á öll hljóðfærin með hjálp tölvunnar, þá vissi ég að raftónlistin var málið. Það var árið 1996. Ég tók þá eitt stig á píanó, til að læra grunninn, og keypti mér hljóðgervil fyrir fermingarpeninginn og tónlistarforrit í heimilistölvuna. Mamma og pabbi trúðu á mig og það hjálpaði til. Þetta var gaman og spennandi og er það enn, 17 árum síðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.