Lífið

Vestfirðingar verðlaunaðir

Baldvin Þormóðsson skrifar
Baldur Páll Hólmgeirsson.
Baldur Páll Hólmgeirsson. mynd/einkasafn
„Við erum fimm Vestfirðingar sem ákváðum að setja þetta á fót,“ segir leikstjórinn Baldur Páll Hólmgeirsson en hann er einn stofnenda kvikmyndafélagsins Glámu.

„Við erum alveg héðan og þaðan af Vestfjörðum, einn frá Þingeyri, annar frá Tálknafirði og einn frá Ísafirði,“ segir leikstjórinn.

„Þetta byrjaði allt þegar við ákváðum að gera stuttmynd á Vestfjörðum,“ segir Baldur Páll en sú mynd bar nafnið Gláma. „Hún fjallar um kokk sem er ráðinn á árshátíð á hóteli en þegar hann mætir á staðinn er ekki allt með felldu.“

Kvikmyndafélagið ákvað síðan að gera þríleik sjálfstæðra mynda sem áttu allar að gerast á gömlum hótelum á Vestfjörðum. „Seinni myndin gerist á Hótel Breiðavík og sú þriðja á Reykjanesi,“ segir Baldur Páll en myndirnar hafa fengið góðar viðtökur.

Eyþór Jóvinsson leikstýrir stuttmyndinni Sker.mynd/einkasafn
Nýjasta mynd félagsins er stuttmyndin Sker en hún segir frá sannri sögu kajakræðara sem ferðast um Vestfirði á kajak.

Myndin hefur vægast sagt fengið góðar viðtökur en hún er bókuð á stórar kvikmyndahátíðir á borð við Aspen Shortsfest, Tribeca Film Festival og stuttmyndahorn Cannes-hátíðarinnar.

„Við erum búin að senda myndina um allan heim, þetta eru svona fyrstu svörin sem hafa dottið inn,“ segir Baldur Páll sem bætir því við að kvikmyndafélagið sé að leggja lokahönd á tvær heimildarmyndir sem verða tilbúnar í sumar. 

„Önnur fjallar um Fjallabræður og ferð þeirra til Ísafjarðar í fyrra,“ segir leikstjórinn. „Hin myndin fjallar um einleikjahátíðina Act Alone á Ísafirði,“ segir Baldur Páll en það virðist vera nóg um að vera hjá kvikmyndafélaginu Gláma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.