Lífið

Rúrik fótboltakappi semur lag um móður sína

Marín Manda skrifar
Rúrik útilokar ekki að gefa út fleiri lög.
Rúrik útilokar ekki að gefa út fleiri lög.
Rúrik Gíslason gaf móður sinni frumsamið lag um samband þeirra á afmælisdaginn. Sverrir Bergmann söng lagið, Í augum mínum, sem var spilað í óvissuferð fjölskyldunnar þegar móðirin varð sextug. Móðir hans var himinlifandi.

„Fyrsta erindið átti ég síðan fyrir einu og hálfu ári og hafði aldrei klárað þetta lag en þótti alltaf svolítið vænt um það og vissi að einn daginn myndi ég klára það,“ segir Rúrik Gíslason fótboltamaður. „Svo hringdi systir mín í mig og sagði að það væri búið að plana óvissuferð fyrir móður okkar á sextugsafmælinu og bað hún mig að semja lag til hennar því ég hafði því miður ekki tök á því að vera með.“

Hann segist þá hafa sest niður með gítarinn sinn og klárað lagið sem fjallar um samband þeirra mæðgina og heitir Í augum mínum. Því næst hafði hann samband við Sverri Bergmann söngvara og Halldór Gunnar Fjallabróður sem sungu og spiluðu inn lagið fyrir hann. Hann segir þá félaga eiga mikið hrós skilið fyrir útfærsluna á laginu sem var spilað fyrir móður hans á sjálfan afmælisdaginn.

„Ég hef mjög gaman af því að semja lög og geri ágætlega mikið af því en ég hef ekkert verið að reyna meika það því það eru aðrir sem eru betri en ég að flytja lögin. Ég ber ótrúlega mikla virðingu fyrir íslenskri tónlist svo ég hef ekkert verið að troða mér í sviðsljósið,“ segir Rúrik, sem þó vill ekki útiloka að hann gefi út annað lag einn daginn.

„Fótbolti á hug minn allan og hitt er áhugamál. Það er ómögulegt að segja hvað ég geri síðar og veltur svolítið á viðbrögðunum við þessu lagi, hvort maður sé alveg glataður eða hvort maður eigi semja meira. Mamma var að minnsta kosti ánægð og það skiptir mig öllu máli,“ segir hann glaður í bragði.




Tengdar fréttir

Rúrik samdi lag fyrir mömmu sína

Knattspyrnumanninum Rúriki Gíslasyni er margt til lista lagt en hann sýndi á sér nýja hlið í tilefni afmæli móður sinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.