Lífið

Vinsælu 12:00 þættirnir byrjaðir á Popp tv

„Þessir þættir hafa verið í gangi í Versló síðan árið 1996 þegar fyrsta 12:00-nefndin var stofnuð. Þeir hafa fyrst og fremst verið hugsaðir sem skemmti- og afþreyingarþættir fyrir Verslinga en eru nú á leiðinni í sjónvarp í fyrsta skipti,“ segir Nökkvi Fjalar Orrason, annar forsprakka 12:00 en þeir Egill Ploder Ottósson fara fyrir hópnum.

„Þetta verða sex þættir á Popp tv en þeir verða samsafn af bestu sketsum og atriðum 12:00 skólaáranna 2012 til 2013 og 2013 til 2014. Við munum taka út allan einkahúmor sem bara Verslingar skilja og eftir standa þættir sem allir krakkar á menntaskóla- og grunnskólaaldri munu hafa gaman af.

Lögin fengið athygli

Sketsarnir í þáttunum eru sjálfstæðir og allir frumsamdir og enda þættirnir á tónlistarmyndbandi með góðu grínívafi. Lárus Örn Arnarson semur öll lögin í þáttunum og er hann mjög efnilegur tónlistarmaður,“ segir Egill.

Áhorf 12:00 á YouTube hefur verið ótrúlega gott og má nefna dæmi um tvö tónlistarmyndbönd sem hafa fengið um sextíuþúsund áhorfendur hvort um sig. „Við endum alla þættina á lagi og myndbandi við það. Við höfum fengið mjög mikla athygli út á lögin og höfum verið að spila víða undanfarið, til dæmis á Söngvakeppni Samfés um daginn og á árshátíðum grunnskóla. Þar kannast flestir við lögin okkar og öll þessi athygli hefur komið okkur á óvart,“ segir Nökkvi.

Ótrúlegt YouTube áhorf

Markmið strákanna hefur verið að gera eitthvað meira úr starfi 12:00-nefndarinnar og þeir stefna hátt. Nú þegar er hægt að fá bæði geisladisk og app með efni sem nefndin hefur sent frá sér. Stöðin þeirra á YouTube er ein af þeim stöðvum með efni á íslensku sem hafa fengið hvað mest áhorf en um það bil 1,8 milljón sinnum hefur verið horft á efni frá þeim og vinsælasta lagið hefur verið spilað rúmlega 210 þúsund sinnum. Strákarnir hlakka mikið til að sjá hvernig þátturinn kemur út á Popp tv en fyrsti þátturinn verður sýndur í kvöld. „Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt og við stefnum á að búa til meira svona efni í framtíðinni. Við ætlum að halda áfram að gera það sem við erum að gera núna nema með öðrum áherslum og formerkjum,“ segja þeir.

Lokaþáttur í beinni

„Lokaþáttur 12:00 verður sýndur beint á Popp tv þann 25. apríl næstkomandi. Hann verður sýndur á sama tíma í Versló og verður eflaust mikil spenna fyrir honum. Hann endar svo með einhverju svakalegu lokalagi fyrir sumarið. Lagið Sumartíminn var lokalagið í fyrra og viðbrögðin við því fóru fram úr öllum vonum.“

Að endingu vilja strákarnir skora á fleiri stelpur að taka þátt í starfi 12:00-nefndarinnar í framtíðinni en þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að vera bara með stráka í nefndinni. „Það eru alltof fáar stelpur sem þora að mæta í inntökuviðtölin, þær eru kannski eitthvað smeykari við að gera sig að fífli en strákarnir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.