Innlent

Misnotaði tvær dætur sínar og keypti vændi

Snærós Sindradóttir skrifar
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot sín.
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot sín. VÍSIR/Stefán
Karlmaður var á dögunum dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn dætrum sínum og vændiskaup. Maðurinn hlaut þriggja ára fangelsi fyrir brotin.

Einn dómari í málinu skilaði sératkvæði og vildi dæma manninn í tveggja ára fangelsi.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi strokið dóttur sinni, sem þá var ellefu ára, innanklæða og látið hana strjúka getnaðarlim sinn. Einnig stakk hann fingri í leggöng stúlkunnar.

Síðar, þegar stúlkan var fimmtán ára gömul, káfaði hann á brjóstum hennar utanklæða þar sem hún lá sofandi í sófa á heimili hans.

Maðurinn var jafnframt dæmdur fyrir að káfa á lærum eldri dóttur sinnar árið 2009 og reyna ítrekað að káfa á kynfærum hennar. Stúlkan var þá nítján ára gömul.

Maðurinn játaði brotin að hluta og krafðist vægustu refsingar. Hann krafðist jafnframt að bótakröfu dætra hans yrði vísað frá dómi.

Í seinni ákæru á hendur manninum var honum gefið að sök að hafa tvívegis síðsumars 2013 greitt samtals 50.000 krónur fyrir vændi. Hann játaði brot sitt.

"Fyllerísrugl"

Maðurinn bar fyrir sig að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar brot gegn yngri dóttur hans áttu sér stað. Hann sagðist muna eftir því að hafa káfað á stúlkunni og látið hana strjúka á sér liminn en kannaðist ekki við að hafa sett fingur í leggöng hennar.

Aðspurður sagðist maðurinn hafa ruglast á dóttur sinni og þáverandi kærustu sinni.

Yngri dóttir mannsins lýsti því fyrir dómi hvernig hún þóttist sofa á meðan faðir hennar káfaði á kynfærum hennar og lét hana strjúka getnaðarlim sinn á meðan. Þegar maðurinn hætti læsti hún sig inni á baðherbergi og grét. Stúlkan segir að hún hafi fyllilega áttað sig á atvikinu eftir að hafa verið dáleidd, sautján ára gömul.

Neitaði sök

Maðurinn neitaði alfarið að hafa káfað á kynfærum eldri dóttur sinnar en sagði að þau hefðu bæði verið drukkin þegar brotið átti sér stað og að þau hefðu sofnað í sama rúmi. Hann viðurkenndi að hafa strokið dóttur sinni um læri, bak og maga.

Eldri dóttir mannsins bar fyrir dómi að hafa reynt að ýta föður sínum af sér en það hafi reynst henni erfitt sökum ölvunar.

Fram kemur í dómnum að fjölskyldur dætra mannsins hafi vitað af brotunum um langa hríð. Ekki var kært fyrr vegna þess að maðurinn lofaði bót og betrun sem svo gekk ekki eftir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×