Innlent

Makríllöndin fóru fram úr sér

Snærós Sindradóttir skrifar
Torbjörn Trondsen prófessor hefur þróað nýtt kvótakerfi sem byggir á auknum ríkisafskiptum.
Torbjörn Trondsen prófessor hefur þróað nýtt kvótakerfi sem byggir á auknum ríkisafskiptum. VÍSIR/Daníel
Torbjörn Trondsen, norskur prófessor í sjávarútvegsfræðum, er staddur hér á landi til að kynna fyrir Íslendingum hugmyndir sínar um nýtt kerfi á úthlutun aflaheimilda. Hann hefur rannsakað sjávarútvegskerfi víða um heim og veitti meðal annars sérfræðiálit í kvótadeilunni í Síle árið 2010.

Trondsen segir að sjálfbærar fiskveiðar séu lykilatriði á bak við skynsamlega útdeilingu kvóta. Þau lönd sem sömdu í makríldeilunni hafi farið fram úr sér. 

„Löndin sem sömdu hefðu ekki átt að fara svo langt en sagan er full af svoleiðis dæmum og fólk verður að læra af reynslunni. Stofninn fer niður við ofveiði og verð á vörunni lækkar þegar svo mikið af fiski er á markaðnum. Þetta skapar óheilbrigðar kúrfur í hagkerfinu þegar stofninn fellur aftur.“

Alþjóðlegt uppboð á kvóta

Kerfi Trondsens byggist á alþjóðlegu uppboði fiskkvóta.

„Ef ákveðin lönd eru búin að semja um kvótahlutdeild sín á milli getur farið fram alþjóðlegt uppboð frá öllum löndum á þeim kvóta sem í boði er. Meginmarkmiðið væri að ágóði sölunnar færi til landanna í sama hlutfalli og samið var um."

„Hugmyndin er að þegar þú deilir út kvóta geti fyrirtæki frá öllum löndum fengið kvóta og megi þá fara um allt svæðið til að veiða.“

Ákveðnir ókostir við uppboð

"Hefðbundið kvótauppboð hefur mistekist í mörgum löndum. Ástæðan er að útgerðirnar hafa samráð sín á milli. Þessvegna þarf strangt regluverk til að koma í veg misnotkun á markaðnum."

Hann segir að ríkið verði að smíða strangan ramma utan um kvótauppboð. Annað vandamál við uppboð sé sá möguleiki að stóru fyrirtækin taki yfir allan markaðinn.

"Kerfið sem hugmyndir mínar byggja á miða við að þú borgir ekki fyrirfram heldur borgir miðað við veiðireynslu. Á þann veg getum við opnað markaðinn fyrir minni fyrirtæki."

Trondsen heldur erindi sitt í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan 11.15 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×