Innlent

Skuldafrumvörp verða birt á morgun

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Forsætisráðherra segir skuldafrumvarpið verða kynnt í ríkisstjórn í vikunni.
Forsætisráðherra segir skuldafrumvarpið verða kynnt í ríkisstjórn í vikunni. Vísir/Daníel
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir frumvörp um skuldamál tilbúin og að þau verði lögð fram á morgun í ríkisstjórninni.

Þetta sagði hann í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær. Hann sagði frumvörpin verða í samræmi við það sem þegar hafi verið kynnt og að þau muni standast væntingar.

Sigurjón M. Egilsson þáttastjórnandi spurði forsætisráðherra hvort ríkisstjórninni tækist á stuttum tíma að koma öllum stóru málunum í þinginu að.

„Mér sýnist að það gangi nokkurn veginn samkvæmt áætlun, þó að auðvitað verði ekki öll frumvörp sem ríkisstjórnin hefur kynnt og setti í málaskrá sína lögð fram á þessu þingi. Ég er að minnsta kosti bjartsýnn á að öll þessi mál sem þarf að klára núna komi fram,“ sagði Sigmundur.

Síðasti dagurinn til að leggja fram ný mál á þessu þingi er mánudagurinn 31. mars. Þó er hægt að koma fram með ný mál síðar en þá þarf að samþykkja að afgreiða þau með afbrigðum.

Mörg stór mál eru á áætlun ríkisstjórnarinnar fyrir vetrar- og vorþing 2014 sem ekki hafa litið dagsins ljós. Fyrir utan skulda- og verðtryggingarfrumvörp má nefna frumvörp um breytingar á Seðlabanka Íslands, staðgöngumæðrun, gjaldtöku í ferðaþjónustu og stjórn fiskveiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×