Lífið

Börn Loka styrkja Barnaspítala Hringsins

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Valdimar Örn Matthíasson, sem hannaði bolinn, og Guðrún Finns, klúbbstýra Barna Loka.
Valdimar Örn Matthíasson, sem hannaði bolinn, og Guðrún Finns, klúbbstýra Barna Loka. mynd/Guðný Ása Guðmundsdóttir
„Bolurinn var sleginn hæstbjóðanda á 50.000 krónur en sá sem bauð hæst heitir Ragnar Jóhannesson, hann er líklega aðdáandi númer eitt. Aðrir sem buðu ákváðu að leggja upphæðina sem þeir buðu í bolinn í söfnunina og svo hefur eitthvað bæst við og nú stendur söfnunin í rúmlega 250.000 krónum,“ segir Guðrún Finns, klúbbstýra Barna Loka, sem er aðdáendaklúbbur Skálmaldar.

Bolurinn sem var prótótýpa af meðlimabolnum í fyrra er algert safnaraeintak og ákaflega sjaldgæfur. „Valdimar Örn Matthíasson sem hannaði bolinn fékk hugmyndina að gera góðverk út frá bjóráskoruninni sem tröllreið öllu hérna um daginn.

Hann valdi að setja bolinn á uppboð til styrktar Barnaspítala Hringsins, en hann hefur sterk tengsl þangað. Bolurinn var upprunaleg hugmynd Valdimars að meðlimabolum fyrir klúbbinn en reyndist svo of dýr í framleiðslu. Hins vegar var gerð ein prótótýpa þannig að um algjörlega einstaka flík er að ræða,“ útskýrir Guðrún.

Börn Loka er opinber aðdáendaklúbbur Skálmaldar og eru í honum 244 meðlimir á öllum aldri. „Flestir eru íslenskir en einnig eru þeir frá Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Noregi, Þýskalandi og Kanada. Þetta er einstakur hópur af eðalmanneskjum með stórt hjarta,“ segir Guðrún.

Bolurinn verður afhentur Ragnari á generalprufunni á Baldri í Borgarleikhúsinu þann 3. apríl næstkomandi. Við sama tækifæri verður fulltrúum frá Barnaspítala Hringsins boðið með Börnunum á sýninguna og söfnunarféð formlega afhent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.