Sport

Helga María og Erla í fámennum hópi

Helga María, til vinstri, eftir að hún kláraði fyrri ferð sína í gær. Erla er hér til hægri.
Helga María, til vinstri, eftir að hún kláraði fyrri ferð sína í gær. Erla er hér til hægri. Vísir/Getty
Í fyrsta sinn frá upphafi náðu tveir keppendur frá Íslandi að klára báðar ferðir í svigkeppni kvenna á Vetrarólympíuleikum en þær Helga María Vilhjálmsdóttir og Erla Ásgeirsdóttir gerðu það á leikunum í Sotsjí í gær.

Helga María hafnaði í 34. sæti á 2:03,22 mínútum og Erla var í 36. sæti á 2:05,88 mínútum. Helga María var að keppa í sinni þriðju grein en Erla í sinni annarri. Þær hafa báðar lokið keppni á leikunum í Sotsjí en aðeins ein keppni er eftir í alpagreinum – svig karla sem fer fram í dag.

Af þeim ellefu konum sem Ísland hefur sent til þátttöku í svigkeppni á Vetrarólympíuleikum höfðu aðeins þrjár konur náð að klára báðar ferðir sínar. Það voru Steinunn Sæmundsdóttir, Ásta Halldórsdóttir og Emma Furuvik. Ásta gerði það tvívegis, á leikunum í Albertville árið 1992 og svo aftur í Lillehammer tveimur árum síðar en íslenskar konur hafa keppt í greininni á Ólympíuleikum frá 1956.

Þess má geta að Helga Margrét og Erla kláruðu báðar ferðir sínar í stórsviginu fyrr í vikunni og sú fyrrnefnda kom einnig í mark í risasvigi sem var hennar fyrsta keppnisgrein á leikunum.

Erla er 20 ára og var kölluð inn í keppnislið Íslands skömmu fyrir leikana vegna meiðsla Maríu Guðmundsdóttur. Helga María verður nítján ára í apríl.


Tengdar fréttir

Stelpurnar kláruðu báðar svigið

Helga María Vilhjálmsdóttir og Erla Ásgeirsdóttir kláruðu báðar ferðir sínar í svigi kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×