Lífið

Sterkir litir og glitrandi glamúr

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Áslaug Magnúsdóttir segir stemninguna hafa verið góða á tískuvikunni í New York en hún var þar að undirbúa nýtt fyrirtæki sem fer af stað í vor.
Áslaug Magnúsdóttir segir stemninguna hafa verið góða á tískuvikunni í New York en hún var þar að undirbúa nýtt fyrirtæki sem fer af stað í vor.
„Stemningin hér er góð eins og alltaf á tískuvikunni. Hins vegar hefur verið óvenju kalt í New York og því eru flestir sem eru að fara á sýningarnar klæddir stórum kápum og stígvélum. Áhorfendahópurinn hefur því ekki verið í eins spennandi fötum og venjulega á tískuvikunni,“ segir athafnakonan Áslaug Magnúsdóttir sem sat á hliðarlínunni á nýafstaðinni tískuviku í New York.



Glamúr og þægindi

Haust- og vetrartískan 2014 var þar í aðalhlutverki og þar kenndi ýmissa grasa. Að sögn Áslaugar voru þar hönnuðirnir Suno, Rodarte, Ostwald Helgason, Rosie Assoulin og Marchesa sem slógu í gegn í ár.

„Ótrúlega flottar sýningar hjá þeim í ár. Þetta var fyrsta tískupallasýningin hjá íslenska hönnuðinum okkar, Ingvari Helga hjá Ostwald Helgason. Sýningin var ótrúlega flott og vel tekið. Uppáhalds fötin mín voru bolir og kjólar með hálfskrældum ávöxtum, banönum og eplum.“



Vinsælustu litirnir næsta haust verða rauður, svartur, hvítur og dökkblár. „Það er mikið verið að setja saman sterka liti í eina flík, lituðum stykkjum blandað saman. Svo var mikið um þægilegan prjónafatnað í bland við gyllt og glamúrkjóla, blússur og jakka.“



Með nýtt fyrirtæki í bígerð 

Áslaug hefur mest farið á sýningar sem tengjast hennar vinnu en hún er að fara af stað með nýtt fyrirtæki í vor. Meðal þeirra sem hún er að vinna með þar eru Marchesa, Zac Posen, J. Mendel og Ostawald Helgason.

Næst ætlar hún að heimsækja tískuvikurnar í París og Tel Aviv.



„Það er mjög mikið að gera við undirbúning nýja fyrirtækisins þannig að ég ætla að sleppa sýningunum í London og Mílanó. Ég ætla hins vegar að fara í nokkra daga til Parísar og svo beint yfir til Tel Aviv á tískuvikuna í boði stjórnenda. Ég er að fara þangað til að styðja við góða vinkonu mína, Dorit bar Or, sem er með sýningu fyrir línuna sína Pas Pour Toi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.