Lífið

Trommari sem smíðar sín eigin trommusett

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jón Geir Jóhannsson, trommuleikari og trommusmiður, hefur smíðað trommur í tíu ár.
Jón Geir Jóhannsson, trommuleikari og trommusmiður, hefur smíðað trommur í tíu ár. fréttablaðið/stefán
„Ég er búinn að smíða fjögur heil trommusett en þetta byrjaði sem fikt fyrir svona fimmtán árum,“ segir Jón Geir Jóhannsson trommuleikari og trommusmiður sem spilar eingöngu á trommusett sem hann hefur smíðað sjálfur. Hann er líklega best þekktur sem trommuleikari Skálmaldar, Ampop, Hrauns og fleiri sveita.

Það var fyrst og fremst mikill áhuga á hljóðfærinu sem varð til þess að Jón Geir byrjaði að fikta við trommusmíðina. „Ég er mikið trommunörd og þetta byrjaði með því að ég byrjaði að taka í sundur dótið mitt og fikta.“ Hann byrjaði þó að smíða fyrir alvöru fyrir tíu árum og hefur á þeim tíma smíðað fjögur heil trommusett og 20 til 30 sneriltrommur.

„Ég hef einu sinni keypt mér nýtt trommusett og það var árið 1992 en ég hef bara spilað á sett sem ég smíða síðustu tíu árin. Ég er þó mest í því að smíða sneriltrommur,“ útskýrir Jón Geir.

Hann segist hafa sett sér það markmið að smíða nýtt trommusett fyrir hverja útgáfutónleika en það hefur þó ekki alveg gengið eftir. „Ég hef hins vegar alltaf bætt einhverju við trommusettið fyrir hverja útgáfutónleika.“

Fyrsta skrefið í trommusmíðaferli Jóns Geirs er að fara í ruslahauga og finna felgur, rör eða aðra sívala hluti sem henta upp á stærð og hafa fallegan tón. „Að fara í Vöku og gramsa í körum fullum af felgum er eins og að vera í nammilandi,“ bætir Jón Geir við.

Eftir að hafa fundið hentuga felgu er fyrsta skrefið að láta renna af henni brúnina sem heldur dekkjunum á. „Svo ákveð ég hvernig ég ætla að lakka hana og hvort ég ætli að spónleggja hana.“ Hann hefur einnig notað affallsrör úr sanddæluskipi og á tvær þannig trommur. Þess má til gamans geta að önnur affallsrörtromman er til sýnis í Hljóðfærahúsinu-Tónabúðinni.

Hvað tekur langan tíma að fullklára sneriltrommu þegar þú hefur fundið réttu felguna? „Það tekur allavega svona mánuð. Það þarf að bíða eftir að lakkið þorni og svona. Ég hef reyndar hent óhemjumagni af trommum þar sem ég hef verið að prófa mig áfram og ekki verið sáttur við útkomuna.“

Hann hefur einnig smíðað trommur úr PVC-vatnslagnarörum, sem fást til dæmis í Vatnsvirkjanum. Þá hefur hann smíðað nokkra viðarsnerla. Jón Geir segist alltaf hafa öfundað fólk sem kann að smíða.

„Ég kann ekki að smíða neitt sem ekki er hringlaga, það fúnkerar í hausnum á mér, annars er ég með formblindu og gæti t.d. ekki smíðað kassa þótt ég ætti lífið að leysa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.