Lífið

Opnuðu veitingastað til að hittast meira

Ugla Egilsdóttir skrifar
Vilhjálmur og Joke bjóða upp á mat á góðu verði.
Vilhjálmur og Joke bjóða upp á mat á góðu verði. Mynd/Heikki Verdurme
„Við ákváðum að opna veitingastað saman til að geta eytt meiri tíma saman,“ segir Vilhjálmur Sigurðarson, sem opnaði veitingastað í Belgíu á dögunum með konu sinni. „Við höfðum bæði svo mikið að gera áður og stundaskráin passaði svo illa saman að við hittumst ekki nema í átta klukkutíma á viku, og allur tíminn sem við höfðum saman fór í praktíska hluti eins og matarinnkaup og að borga reikninga,“ segir Vilhjálmur.

Kona Vilhjálms heitir Joke Michiel og er frá Belgíu. „Við kynntumst þegar hún var að gera sjónvarpsþátt um veitingastaðinn Hertog Jan, þar sem ég vann áður. Síðan þróaðist það yfir í eitthvað meira. Joke vann sem leikstjóri og framleiðandi fyrir sjónvarpsstöð hér í Belgíu. Við giftum okkur síðasta sumar og eigum von á okkar fyrsta barni eftir sex vikur.“

Veitingastaðurinn heitir Souvenir og var opnaður 1. febrúar eftir langan undirbúning. „Þetta hljómar voðalega rómantískt, en þetta er auðvitað mikil vinna. Við erum stolt og sátt með að hafa tekið þessa ákvörðun, en þetta er auðvitað ekkert auðvelt. En þetta er hverrar mínútu virði,“ segir Vilhjálmur.





Veitingastaðurinn Souvenir er í bænum Leper í flæmska hluta belgíu.Mynd/Heikki Verdurme
Vilhjálmur hafði lengi unnið sem kokkur. „Ég fór fyrst til Englands þar sem ég starfaði um skamma hríð. Síðan hélt ég áfram og endaði í Belgíu fyrir að verða fjórum árum. Þar vann ég á stað sem heitir In de Wulf og síðan á Hertog Jan. Ég sagði upp stöðu minni á síðarnefnda staðnum til að stofna nýja veitingahúsið,“ segir Vilhjálmur. 

Hjónin leituðu lengi að heppilegum stað fyrir veitingastaðinn. „Souvenir er í bæ sem heitir Leper og er í flæmska hluta Belgíu. Það mætti kalla það miðsvæði landbúnaðar í Belgíu. Við vinnum náið með bændum á svæðinu. Til dæmis kaupum við allar mjólkurvörur frá sama bóndanum. Það virðist vera mikil ánægja með staðinn. Hann fyllir upp í eitthvað sem vantaði hérna. Hugmyndafræðin er einföld: Við notum ferskt hráefni úr nánasta umhverfi og búum til ódýran mat. Þetta er góður veitingastaður en samt ekki í verðflokki þar sem menn verkjar í veskið eftir matinn. Hér eru margir staðir þar sem maturinn kostar 200-300 evrur á mann. Hjá okkur er hins vegar þriggja rétta matseðill í boði fyrir 28 evrur eða 5 rétta matseðill fyrir 55 evrur.“ 

Maturinn er úr fersku hráefni frá bændum í nágrenninu.Mynd/Heikki Verdurme





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.