Lífið

Hádegistónleikaröðin Ljáðu mér eyra hefst

Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona kemur fram á fyrstu tónleikunum, sem fram fara í dag.
Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona kemur fram á fyrstu tónleikunum, sem fram fara í dag. mynd/einkasafn
Tónleikaröðin Ljáðu mér eyra hefst aftur í Fríkirkjunni í dag klukkan 12.15. Um er að ræða hálftíma tónleika í hvert skipti undir styrkri stjórn píanóleikarans Gerrits Schuil en hann fær til liðs við sig marga af helstu stjörnum íslensks tónlistarlífs.

„Píanóleikarinn Gerrit Schuil hóf þessa tónleikaröð árið 2009 en hann er einn af okkar helstu meðleikurum hér á landi og á auðvelt með að fá til liðs við sig helstu kanónur landsins úr klassíska geiranum,“ segir Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona. Hún verður jafnframt fyrsti gestur Schuil. Hún hefur getið sér gott orð undanfarin ár sem litríkur flytjandi á óperusviði, óratoríusviði og fyrir flutning sinn á barokktónlist en hefur einnig vakið mikla athygli fyrir ljóðasöng.

Hallveig sló eftirminnilega í gegn í hlutverki Michaëlu í uppsetningu Íslensku óperunnar á Carmen í haust og er tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir hlutverkið.

Píanóleikarinn Gerrit Schuil hóf tónleikaröðina árið 2009.mynd/tómas jónsson
„Gerrit Schuil er frábær píanisti og er líka einn okkar aðalljóðatúlkandi,“ segir Hallveig. Schuil er frá Hollandi en hefur búið hér á landi í 21 ár og unnið við ýmislegt. Hann hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands og verið listrænn stjórnandi hjá Íslensku óperunni ásamt því að kenna.

„Tónleikaröðin stendur til 9. apríl og verður alltaf á hverjum miðvikudegi og kostar einungis þúsund krónur inn. Það hefur alltaf verið ágætis aðsókn á tónleikana. Tónleikaröðin hefur verið í pásu síðan 4. desember enda desembermánuður mikill annamánuður fyrir tónlistarmenn,“ segir Hallveig.

Á tónleikum vorsins koma til að mynda fram með honum þau Diddú, Hanna Dóra Sturludóttir, Ágúst Ólafsson, Guðný Guðmundsdóttir og Þóra Einarsdóttir ásamt fleirum.

Gerrit Schuil hefur unnið hug og hjörtu hlustenda fyrir meðleik sinn og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins fyrir samvinnu sína og Ágústs Ólafssonar í ljóðaflokkum Schuberts árið 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.