Lífið

Listamenn bjóða til bolluveislu í Iðnó

Símon Birgisson skrifar
Snorri Ásmundsson myndlistarmaður bítur í safaríka rjómabollu.
Snorri Ásmundsson myndlistarmaður bítur í safaríka rjómabollu.
„Já, þetta verður vegleg bolludagsdagskrá,“ segir Snorri Ásmundsson myndlistarmaður og einn af meðlimum í Leikhúsi listamanna sem heldur eitt af sínum frægu gjörningakvöldum í Iðnó á mánudagskvöld. Hópurinn auglýsir sérstaka bolludagsdagskrá en bolludagurinn er samkvæmt dagatölum í mars.

„Það er ekkert vit í að hafa bolludaginn svona nærri sprengidegi,“ segir Snorri.

„Með því að hafa hann á mánudaginn gefst miklu meiri tími til að melta bollurnar og njóta þeirra.“

Leikhús listamanna hefur troðið upp í Þjóðleikhúskjallaranum síðustu ár. Hópurinn samanstendur aðallega af myndlistarmönnum.

Ragnar Kjartansson kemur reglulega fram með hópnum, líka Ásdís Sif Gunnarsdóttir og dansararnir Saga Sigurðardóttir og Margrét Bjarnadóttir. Í föstu hlutverki sem kynnir er svo Ármann Reynisson.

Snorri lofar veglegri dagskrá.

„Við fáum líka gestalistamennina Bjarna Bernharð og Steinunni Harðardóttur og svo verða auðvitað leynigestir eins og vanalega,“ segir Snorri. Hann lofar því einnig að enginn fari svangur heim af skemmtun hópsins.

„Mín uppáhaldsbolla? Ætli það sé ekki rjómabolla með súkkulaðisósu og jarðarberjasultu,“ bætir hann við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.