„Mamma kenndi mér að hekla loftlykkjur þegar ég var fjögurra ára, ég varð heilluð og síðan hefur prjón og hekl verið mitt aðaláhugamál. Svo hefur það undið upp á sig. Ég fór að vinna hjá Tinnu og hef verið aðalprjónahönnuður Ístex í nokkur ár,“ segir Bergrós Kjartansdóttir.
Hún er að opna sýningu á eigin hönnun í dag í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði sem er orðið að menningarhúsi og kynna vefinn sem hún hefur nýlega sett í loftið. Þar er hún með flíkur sem hún selur uppskriftir að. „Ef fólk borgar með korti þá kemur uppskriftin eftir nokkrar mínútur í pósthólfið þess. Það er galdurinn í þessu,“ lýsir hún.
Bergrós er Ísfirðingur en býr í Reykjavík og á þar mann og þrjá drengi. Hún er menntuð í þjóðfræði, bókmenntafræði og hagnýtri fjölmiðlun og nemur nú gull- og silfursmíði hjá Dýrfinnu Torfadóttur. Þær tvær ætla að sýna saman afurðir sínar í Görðum á Akranesi í febrúar.
Sýnir prjón og skart á Ísafirði
