Innlent

Vilja að konurnar taki sér meira rými

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Konur úr öllum flokkum voru sammála um að grípa þurfi til aðgerða.
Konur úr öllum flokkum voru sammála um að grípa þurfi til aðgerða. Vísir/GVA
„Það er ánægjulegt að viðskipta- og iðnaðarráðherra hafi tekið af skarið um að hún ætli ekki að afnema lögin um hlutföll kynja í stjórnum fyrirtækja,“ sagði Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra í samtali við Fréttablaðið á blaðamannafundi í gær þar sem kynnt var sameiginleg aðgerð allra stjórnmálaflokka til að hvetja til vals á konum í forystusæti í stjórnmálum og atvinnulífinu almennt.

Ragnheiður Elín Árnadóttir viðskiptaráðherra boðaði í vikunni til lokaðs fundar með fulltrúum frá atvinnulífinu til að fá fram ólíkar skoðanir á lögunum. Ráðherrann var framsögumaður minnihlutaálits viðskiptanefndar á sínum tíma þar sem fram kom skýr andstaða við lagasetninguna. Hún sagði í viðtali við Fréttablaðið á þriðjudag að hún muni ekki taka lögin til endurskoðunar núna á vorþingi.

Upphaf þessarar aðgerðar sem kynnt var í gær má rekja til fundar Eyglóar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra með formönnum allra stjórnmálaflokka í Ráðherrabústaðnum þar sem rætt var um nauðsyn þess að velja konur til forystu í flokkunum.

„Ég studdi þessa lagasetningu á sínum tíma og tel að það þurfi að koma meiri reynsla á framkvæmd laganna og áhrif þeirra áður en farið er að fjalla um að afnema þau.“ sagði Eygló.

„Við erum hér samankominn hópur kvenna sem erum ósammála um langflest en höfum ákveðið að vinna saman að því sem við erum þó sammála um,“ sagði Eygló Harðardóttir í samtali við Fréttablaðið. Hún sagði viðbrögðin á fundinum í ráðherrabústaðnum við þessu átaki og áskorun hafa verið misjöfn. „En það var ákveðið að taka þetta mál á næsta skref og þess vegna boðum við til þessa fundar,“ sagði Eygló.

Fulltrúar kvennahreyfinga allra flokka á Alþingi stóðu að fundinum í gær ásamt formönnum Kvenréttindafélagsins, Kvenfélagasambandsins og Femínistafélagsins.

Fulltrúar flokkanna voru hver og einn með stutta framsögu á fundinum þar sem þær lýstu nauðsyn þess að konur jafnt sem karlar skipuðu forystusæti í stjórnmálum og atvinnulífinu og boðaðar voru frekari aðgerðir af þessum meiði. Meðal þeirra sem tóku til máls var Heiða Kristín Helgadóttir, annar formanna Bjartrar framtíðar, sem varaði þá sem væru með kvíðahnút í maganum yfir þessu átaki við því að hnúturinn ætti aðeins eftir að stækka.

Þá sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, svona framtak mikilvægt, en raunverulegar aðgerðir þurfi líka að koma til. Hún bætti við að ef konur ætluðu sér að taka meira rými, þá þyrftu einhverjir að gefa það eftir eðli málsins samkvæmt.

Í aðgerðinni verður samfélagsmiðlum beitt til að ná árangri í jafnréttisbaráttunni. Allar konur eru hvattar til að setja mynd með slagorðinu inn á Fésbókarsíðu sína og deila henni áfram. Í því felst „kvennabylgjan“ og fer hún fram á Fésbókarsíðum. Myndina má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×