Lífið

Strengdi ömurleg áramótaheit

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Frá því ég man eftir mér hef ég alltaf strengt sama áramótaheitið – að grennast. Sem er um það bil ömurlegasta áramótaheit sem ég veit um. Þess vegna ákvað ég að sleppa því núna og strengja áramótaheit sem væri þess virði að reyna fyrir alla muni að framkvæma,“ segir Marta María Jónasdóttir, blaðamaður og ritstjóri Smartlands, þegar hún er spurð út í áramótaheitið fyrir 2014.

„Ég ætla að heimsækja ákveðið land og kaupa mér kjól sem ég hef þráð að eignast lengi. Ekki er búið að tímasetja þennan viðburð en við vinkonurnar stefnum á litla hópferð í þetta „missjón“. Ég mun verða mjög vonsvikin ef þetta rennur út í sandinn hjá okkur.“

Marta María vinnur nú að sinni fyrstu matreiðslubók sem Forlagið mun gefa út á þessu ári. Hún er tilraunaglöð í eldhúsinu og hefur safnað uppskriftum um árabil enda mikill matgæðingur.

„Ég hef frá því ég man eftir mér spáð mikið í því hvað væri í kvöldmatinn. Í seinni tíð hef ég lagt mig alla fram við að læra alls konar trix í eldhúsinu og fannst ég orðin vel sigld þegar pabbi kenndi mér að búa til alvöru bernaise-sósu. Eftir að ég varð móðir skiptir matur mig enn þá meira máli því ekki vill maður ala börn sín upp í sjoppum,“ segir Marta. Í nýju bókinni verður þó ekki einungis að finna heilsurétti.

„Lífið er ekki svarthvítt og því verður þetta alls konar. Það verður myndarlegur sætindakafli en annars gengur þessi bók út á að fá fólk til þess að elda allt frá grunni án þess að það taki of mikinn tíma. Þetta er bók fyrir upptekið fólk sem vill samt hafa ákveðinn standard. Ég þekki engan sem hefur efni á því að vera með einkakokk heima hjá sér og því neyðumst við til þess að bjarga okkur sjálf. Blandarakynslóðin á eftir að hoppa af kæti þegar hún fattar, eftir lesturinn, hvað þetta er súpereinfalt og skemmtilegt.“

Grænn chia-grautur fyrir tvo

Þessa dagana er ég töluvert upptekin af morgungrautum og finnst þeir sniðugir.

1 bolli vatn

12 möndlur

Handfylli frosið mangó

1 msk. hveitigrasduft

1 tsk. hampduft

4 msk. chia-fræ



Möndlurnar og vatnið eru þeytt saman í blandara þangað til áferðin er hvít og mjúk. Þá er mangóinu bætt út í ásamt hveitigrasduftinu og hampduftinu. Þeir sem vilja ekki svona mikið grænt geta sett epli út í í staðinn og sleppt græna duftinu. Að lokum eru chia-fræin hrærð út í grautinn og látin bólgna út á tíu mínútum.

P.S. þetta er ekta grautur til að taka með sér í vinnuna eða borða á leiðinni í bílnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.