Erlent

Kvöddu strætóbílstjóra sem bjargaði mannslífum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hluti bæjarins var í rúst eftir að skýstrókurinn gekk yfir.
Hluti bæjarins var í rúst eftir að skýstrókurinn gekk yfir. Vísir/Getty
Íbúar bæjarins Henryville í Indianafylki í Bandaríkjunum kvöddu í gær strætóbílstjórann Ray Donahoe, sem bjargaði lífum margra barna þegar skýstrókur gekk yfir bæinn fyrir tveimur árum. Donahoe var 67 ára þegar hann lést úr hjartaáfalli fyrr í mánuðinum.

Hetjudáðir mannsins vöktu mikla athygli þegar skýstrókurinn hreinlega rústaði hluta Henryville í mars árið 2012. Donahoe var á bakvið stýrið á strætisvagni þegar hann sá skýstrókinn nálgast bæinn. Hann var með fullan vagn af börnum og sá að eitthvað þurfti að gera í flýti. Hann stoppaði fyrir framan næsta hús og bankaði upp á. Til dyra kom kona og samþykkti hún að leyfa Donahoe og börnunum að halda til í kjallaranum sínum á meðan skýstrókurinn gekk yfir.

„Hann bjargaði lífi okkar allra,“ sagði ein stúlkan sem var í vagninum, í gær þegar hún var viðstödd jarðaför Donahoe.

Jarðaförin var fjölmenn og var greinilegt að Donahoe skipti bæjarbúa miklu máli. Útförin var haldin í íþróttasal framhaldsskólans í bænum.

Um tvö þúsund manns búa í bænum Henryville.

Donahoe var strætóbílstjóri í fjörtíu ár og keyrði alltaf sömu leiðina. Auk þess þjálfaði hann körfubolta og hafnabolta.

„Hann elskaði börn bæjarins og þau elskuðu hann. Hann hvatti þau alltaf til dáða,“ sagði konan hans Cathy við útförina í gær og bætti við: „Hann setti fjölskylduna alltaf í forgang. Og hann leit á bæjarbúa sem fjölskylduna sína.“

Flaggað var í hálfa stöng víða um bæinn í gær og voru svartir borðar hengdir á vagninn sem Donahoe keyrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×