Innlent

Sakar Bandaríkjamenn um tvískinnung

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Barack Obama forseti Bandaríkjanna vill endurskoða öll samskipti á milli Bandaríkjanna og Íslands vegna veiða Íslendinga á langreyði. Forsætisráðherra segist ekki ætla að láta mestu hvalveiðiþjóð heims stjórna því hvort Íslendingar veiði hvað eða ekki.

Barack Obama sendi í gær bandaríska þinginu minnisblað þar sem hvalveiðar Íslendinga eru harðlega gagnrýndar. Forsetinn beinir þeim tilmælum til bandarískra stofnana að allir tvíhliðasamningar við Ísland verði endurskoðaðir vegna veiða á langreyði sem er á lista Cites yfir dýr í útrýmingarhættu.

Ekki felst hótun um viðskiptaþvinganir í minnisblaði Obama. Málið var rætt á Alþingi í dag og þar sakaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Bandaríkjamenn um tvískinnung.

„Það hlýtur að vera einhvers virði að menn standi á sínum prinsippum og láti ekki mestu hvalveiðiþjóð í heims segja sér að við megum ekki veiða hval. Á meðan Bandaríkjamenn halda áfram sínum hvalveiðum þá ætla þeir að skikka Íslendinga til að hætta að veiða hval,“ sagði Sigmundur Davíð á Alþingi í dag.

Veiða 770 langreyðar á næstu árum

Í minnisblaðinu kemur fram að Alþjóðahvalveiðiráðið meti það sem svo að hægt sé að veiða árlega 46 langreyðar í Norður Atlantshafi án þess að það komi niður á stofninum. Veiða á um 770 langreyðar á næstu fimm árum samkvæmt veiðileyfi sem sjávarútvegsráðherra gaf út í desember síðastliðnum. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar segir það óheppilegt og telur fulla ástæða til að taka hótanir Bandaríkjamanna alvarlega.

„Ef að forseti Bandaríkjanna felur innanríkisráðherra að endurskoða tvíhliða samskipti við Ísland þá finnst mér við eiga að taka mark á því,“ segir Sigríður Ingibjörg. Mikilvægt sé að fagleg umræða um hvalveiðar Íslendinga fari fram.

„Við erum nokkrir þingmenn sem höfum lagt fram tillögu um að fram fari málefnalegt hagsmunamat á hvalveiðum. Ég tel borðliggjandi að við þurfum að samþykkja það núna og meta það hvort hagsmunir okkar af hvalveiðum séu það ríkir að það sé ástæða til að fá upp á móti sér ríki víða um heim, sem og almenning á vesturlöndum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×