Innlent

Endurbætur á Gerðubergi

Stefán Árni Pálsson skrifar
myndir/reykjavíkurborg
Í sumar verður unnið að endurbótum og breytingum á menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Breiðholti til að mæta framtíðarþörfum starfseminnar en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Framkvæmdir verða boðnar út fljótlega og lýkur í september.

Gerðuberg er alhliða menningar- og mannlífsmiðstöð í Breiðholti og með breytingunum en samkvæmt tilkynningunni verður auðveldara að samhæfa starfsemina í húsinu og styrkja rekstrargrundvöll hennar.

Breytingarnar eiga að bæta nýtingu á húsnæði, auka flæði milli bókasafns, veitingaaðstöðu, sem og sýninga- og fundarsala. Ásýnd hússins verður nútímalegri og fallegri, segir í greinargerð með breytingunum og aðstaða veitingaþjónustu batnar.

Breytingar verða gerðar á efri hæð hússins og eru helstu breytingar þær að opnað verður frá kaffihúsi inn í bókasafnið og inn í sýningarrými í vesturálmu. Þá verður nýverandi eldhúsaðstöðu breytt í kaffi- og fundaraðstöðu, en eldhús og afgreiðsla flutt nær anddyri hússins. Tækifærið verður notað til að bæta lýsingu og hljóðvist í kaffihúsi.



Í kynningu á breytingunum fyrir borgarráði segir að unnið sé að úttekt á tækifærum í samruna Borgarbókasafns Reykjavíkur og menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs.

Styrkja á framtíðarhlutverk almenningsbókasafna sem menningarmiðja í hverfum borgarinnar með áherslu á fjölbreytta dagskrá árið um kring. Vilji er til að bókmenntum og bókmenningu verði gert sérstaklega hátt undir höfði með viðburðum t.d. í samvinnu við Bókmenntaborgina og aðila sem henni tengjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×