Lífið

Settu upp flóttamannabúðir í Grindavík

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Mynd/Gassi
„Tökurnar gengu eins og í sögu. Það var kalt úti og rok en krakkarnir stóðu sig alveg ótrúlega vel,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Unicef á Íslandi, en samtökin voru að ljúka við að gera umfangsmikla auglýsingaherferð til að vekja athygli á ömurlegu hlutskipti flóttamanna í heiminum.

Unicef, í samvinnu við Íslensku auglýsingastofuna og True North, sáu um verkefnið en um 80 manns komu að verkefninu í sjálfboðavinnu. Kvikmyndatökufólk, leikmyndahönnuðir, búningahönnuðir og tæknimenn gáfu vinnu sína, auk þess að lána kvikmyndatökubúnað.

Sigríður Víðis Jónsdóttir
Auglýsingin markar upphaf að átaki Unicef sem miðar að því að vekja athygli á ömurlegum aðstæðum flóttabarna víða um heim. Til að skapa réttar aðstæður voru flóttamannabúðir settar upp við Sólbrekku við Grindavík.

Sigríður segir að skemmtileg stemning hafi myndast í hópnum á tökudegi og að andrúmsloftið hafi verið jákvætt þrátt fyrir kuldann.

„Allir voru þarna til að leggja góðu málefni lið og samhugurinn var mikill. Ungmennaráð Unicef tók að sér að hlýja litlu leikurunum og láta þá fá teppi og kuldagalla á milli taka,“ segir Sigríður og bætir við að þetta hafi verið mikil lífsreynsla fyrir krakkana sem tóku þátt. 

„Við fréttum til dæmis af því að einn fimm ára snáðinn hefði nefnt það við foreldra sína þegar hann kom heim um kvöldið hvað hann væri þakklátur fyrir að eiga heimili.“

Leikarinn Ólafur Darri sá um að talsetja auglýsinguna, Emilíana Torrini útsetti og syngur lagið sem hljómar undir og ljósmyndarinn Gassi tók myndirnar sem eru óneitanlega áhrifaríkar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.