Innlent

Þorlákshöfn er Hawaii norðursins

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Vanir brimbrettamenn stunda íþróttina allan ársins hring í Skötubót ef færi gefst.
Vanir brimbrettamenn stunda íþróttina allan ársins hring í Skötubót ef færi gefst. Mynd/Surf.is
„Þetta er falinn fjársjóður,“ segir Bjarki Þorlákssson hjá surf.is um fjöruna í Skötubót í Þorlákshöfn þar sem vel er tekið í þá hugmynd að komið verði upp aðstöðu fyrir brimbrettafólk.

Bjarki segir brimbrettaiðkun sífellt vaxa fiskur um hrygg á Íslandi. Skötubót sé meðal þeirra staða sem ákjósanlegastir séu fyrir íþróttina.

„Við erum að falast eftir að fá að koma upp skýli, kannski skúr eins og notuð eru í byggingariðnaði, til að geta klæðst göllunum í skjóli og farið í sturtu.

Bjarki segir að nú séu á bilinu fimmtíu til sextíu manns sem stundi brimbrettin að staðaldri. Námskeið fyrir byrjendur séu haldin í Skötubót og í Sandvík á Reykjanesi. Þeir sem reynslumeiri séu geti stundað íþróttina nánast um allt land.

Vaxandi straumur útlendinga kemur að sögn Bjarka til að standa á brimbrettum við strendur landsins. Þeir séu mjög hrifnir af Skötubótinni.

Farið yfir stöðuna í fjörunni í Skötubót.Mynd/Surf.is
Hawaii norðursins

„Þessi svarti sandur er alger perla í augum útlendinga og þeir eiga ekki orð. Útlendingar sem koma hingað eru að taka myndir sem þeir fá birtar í flottum surf-tímaritum erlendis, á netinu og samfélagsmiðlum. Þannig að þetta er fljótt að spyrjast út og gæti orðið tiltölulega stórt innan fárra ára,“ segir hann aðspurður um hugsanlegan uppgang brimbrettaíþróttarinnar.

Þá bendir Bjarki á að Skötubót og svæðið þar í kring höfði ekki aðeins til brimbrettafólks. Kajakmenn stundi þaðan siglingar og í landi sé golfskáli þar sem hægt sé að fá veitingar.

Sem fyrr segir tekur bæjarstjórn Ölfuss vel í hugmyndir brimbrettkappa. Þegar er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2014 til 2017 að hefja undirbúning að uppsetningu á aðstöðu fyrir brimbrettafólk í Skötubótinni. Bjarki er ánægður með þróunina. Varðandi frekar uppbyggingu kveður hann vissulega ýmsa möguleika í ferðaþjónustu á svæðinu. „Þó ég sé ekki að halda því fram að þetta sé Hawaii er þetta kannski Hawaii norðursins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×