Lífið

Hafa ekki kjark til að bjarga sjálfum sér

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Rakel Garðarsdóttir og Björn Hlynur Haraldsson
Rakel Garðarsdóttir og Björn Hlynur Haraldsson Vísir/Vilhelm
„Við erum reglulega spennt fyrir þessu,“ segir Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi og framkvæmdastýra Vesturports, en fyrirtækið hyggst framleiða kvikmyndina Blóðberg í sumar. Myndin er sú fyrsta eftir Björn Hlyn Haraldsson í fullri lengd, en hann hefur áður skrifað og leikstýrt nokkrum stuttmyndum, til dæmis Korríró.

Tökur á Blóðbergi hefjast þann fimmta ágúst, en Rakel og Ágústa M. Ólafsdóttir koma til með að framleiða myndina fyrir hönd Vesturports.

„Björn Hlynur byggir handritið að myndinni á fyrsta leikritinu sínu, Dubbeldusch, sem Vesturport setti upp fyrir nokkrum árum. Sagan fjallar um hefðbundna íslenska fjölskyldu í úthverfi Reykjavíkur. Fjölskyldufaðirinn bjargar samlöndum sínum með skrifum á sjálfshjálparbókum á meðan móðirin bjargar fólki á spítala þar sem hún vinnur sem hjúkrunarfræðingur. En hvorugt þeirra hefur kjark til að bjarga sjálfu sér. Svo kemst upp gamalt leyndarmál og þá breytist allt,“ segir Rakel, sem vill þó ekki gefa of mikið upp.

„Þetta er gamansöm mynd með alvarlegum undirtón,“ segir Rakel, létt í bragði.

Í myndinni koma til með að leika Hilmar Jónsson, Harpa Arnardóttir, Þórunn A. Kristjánsdóttir, Hilmir Jensson, María Heba Þorkelsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson, svo einhverjir séu nefndir.

„Svo erum við að leita að aukaleikurum. Myndin er öll tekin í Reykjavík og nágrenni og í henni eru stórar senur sem kalla á fullt af aukaleikurum, en áhugasamir geta sent mynd á blodberg@vesturport.com og fylgst með á heimasíðu Vesturports,“ segir Rakel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.