Innlent

Kjarval sleginn á rúmar 3,5 milljónir

Jakob Bjarnar skrifar
Tryggvi Páll segir að Kjarvals-verkið sem slegið var í gær á þrjár milljónir hafi verið úrvals verk.
Tryggvi Páll segir að Kjarvals-verkið sem slegið var í gær á þrjár milljónir hafi verið úrvals verk.
Verk eftir Kjarval var í gær slegið á málverkauppboði á rétt tæpar þrjár milljónir en með gjöldum kostar það viðkomandi um 3,5 milljónir. Nafn kaupandans er ekki gefið upp.

„Já, þetta var hæsta verðið í gær á reyndar á mjög fínni mynd eftir Kjarval. Þetta er úrvalsmynd, mjög gott verk,“ segir Tryggvi Páll Friðriksson listmunasali í Gallerí Fold.

Fyrri hluti uppboðsins var í gær og seinni hlutinn er í kvöld, í Gallerí Fold Rauðarárstíg og hefst það klukkan 18. Tryggvi segir ekkert óvænt hafa gerst á uppboðinu í gær. „Við kláruðum fyrstu 80 númerin. Sumt af því sem maður heldur að seljist seldist ekki, annað seldist og jafnvel á betra verði en maður bjóst við. Þetta er svo einkennilegur heimur að maður áttar sig ekki alltaf á honum,“ segir Tryggvi.

Málverkamarkaðurinn getur verið ágætur barómeter á efnahagslífið en í því ljósi er ekki mikið að gerast. Vísitalan sem þeir hjá Fold miða við hefur hækkað örlítið en ekki nóg sé miðað við lækkun í fyrra. En þeir sem eiga peninga gera margt verra við þá en kaupa myndlist, sem í gegnum tíðina hefur talist góð fjárfesting. Og þau eru nokkur spennandi verk sem boðin verða upp á eftir.

Kjarvalsverkið sem um ræðir heitir Jónsmessunótt og er olíuverk frá 1968. Meðal þeirra verka sem boðin verða upp nú á eftir er verkið frá Ólafsvík sem Louisa Matthíasdóttir málað 1979. Þetta er olíuverk og er metið í uppboðsskrá á milli 1,4 til 1,6 milljón krónur.

Þá má nefna spennandi verk eftir Alfreð Flóka, en verk eftir hans eru fágæt. Verkið heitir fórn, frá árinu 1984 og er kolateikning - verðmat á því er á milli 6 og 800 þúsund krónur.

Þetta verk eftir Alfreð Flóka verður boðið upp á eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×