Menning

Skáldverk kvenna í öndvegi

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Gerður Kristný
Gerður Kristný
Það styttist í jólin og jólabókaflóðið alræmda um það bil að skella á. Eftir fantagott útgáfuár í fyrra, þar sem hvert stórvirkið rak annað, er útgefendum nokkur vandi á höndum en á útgáfulistum forlaganna fyrir komandi vertíð er þó ýmislegt bitastætt sem bókaunnendur geta farið að hlakka til að lesa. Bækur eftir konur eru áberandi og ýmsar af okkar bestu skáldkonum senda frá sér bók í haust.



Stórkanónur í öllum flokkum

Vinsælasta ljóðskáld þjóðarinnar, Gerður Kristný, sendir frá sér ljóðabókina Drápu sem mun vera ljóðabálkur um glæpi og önnur af okkar bestu ljóðskáldkonum, Kristín Eiríksdóttir, sendir frá sér ljóðabók sem nefnist Kok. Skáldsögur eru annars mest áberandi á útgáfulistunum eins og árstíðin býður og stórkanónur eins og Steinunn Sigurðardóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir og Oddný Eir Ævarsdóttir eru allar með skáldsögur í haust. Saga Steinunnar nefnist Gæðakonur, Guðrún Eva sendir frá sér Englaryk og Oddný Eir skrifar um Ástarmeistarann.

Jónína Leósdóttir á líka skáldsögu á listanum og nefnist hún Bara ef… Nýr höfundur, Soffía Bjarnadóttir, kveður sér hljóðs með skáldsögunni Segulskekkju og Ingibjörg Reynisdóttir, sem heillaði þjóðina með sögu sinni um Gísla á Uppsölum fyrir tveimur árum, sendir nú frá sér skáldsögu sem nefnist Rogastanz. Glæpadrottningin Yrsa Sigurðardóttir er að sjálfsögðu með nýja glæpasögu en sú hefur ekki enn hlotið nafn.

Ein allra áhugaverðasta bókin úr smiðju kvennanna er svo sjálfsævisaga Jóhönnu Kristjónsdóttur, Svarthvítir dagar, sem segir frá fyrstu tuttugu árunum í lífi hennar.



Dauðar, kvíði og öræfi

Karlmennirnir láta að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og jólaboðinn sjálfur, Arnaldur Indriðason, verður auðvitað gefinn út 1. nóvember eins og hefð er fyrir. Stefán Máni er með nýja glæpasögu, Litlu dauðarnir, og sömuleiðis Ragnar Jónasson en bók hans nefnist Náttblinda. Jón Óttar Ólafsson sem kvaddi sér hljóðs með Hlustað í fyrra verður með nýja bók um glæp en endanlegur titill liggur ekki fyrir.



Steinar Bragi er einn þeirra höfunda sem lesendur bíða eftir nýju verki frá og þeirri bið lýkur í október þegar skáldsagan Kata lítur dagsins ljós. Ófeigur Sigurðsson er líka höfundur sem margir vænta mikils af og hann sendir frá sér skáldsöguna Öræfi.

Nýliðarnir í karlahópnum eru Orri Harðarson, sem sendir frá sér sína fyrstu skáldsögu, Stundarfró, og Sverrir Norland með skáldsöguna Kvíðasnillingar.



Börnin fá þá eitthvað fallegt

Fjölmargar nýjar íslenskar barnabækur líta dagsins ljós fyrir jólin. Þórarinn Leifsson sendir frá sér söguna Maðurinn sem hataði börn, Sigrún Eldjárn og Þórarinn Eldjárn skrifa Fuglaþrugl og nafnahrafl, Gunnar Helgason heldur áfram með fótboltasöguna sína og nefnist nýja bókin Gula spjaldið í Gautaborg. Ævar vísindamaður, Ævar Þór Benediktsson, er með söguna Þín eigin þjóðsaga og Bryndís Björgvinsdóttir, höfundur Flugunnar sem stöðvaði stríðið, sendir frá sér bókina Hafnfirðingabrandarinn.

Aðrar barnabækur eftir konur eru Leitin að geislasteininum eftir Iðunni Steinsdóttur, Nikký og bölvun bergmálsins eftir Brynju Sif Skúladóttur, Nála – riddarasaga eftir Evu Þengilsdóttur og Tröllastrákurinn eignast vini eftir Sirrý.

Sjónvarpsmaðurinn Egill Eðvarðsson sendir frá sér vísnabók fyrir börnin og ber hún titilinn Ekki á vísan að róa.



Þýddar bækur með íslenskum tengingum

Þýddar skáldsögur eru fastur liður í flóðinu og meðal spennandi þýðinga sem koma út á næstu vikum er saga Hönnuh Kent um síðustu daga Agnesar Magnúsdóttur, Burial Rites, sem í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar hefur hlotið nafnið Náðarstund. Önnur þýdd bók með íslenska tengingu er saga Sally Magnusson, dóttur Magnusar Magnussonar, Where memories go, sem fjallar um baráttu móður hennar við Alzheimer, en sú nefnist Handan minninga í þýðingu Ragnheiðar Margrétar Guðmundsdóttur.

Langþráð þýðing Sigurðar Karlssonar á sögu Sofie Oksanen, Þegar dúfurnar hurfu, kemur út hjá Forlaginu og sömuleiðis þýðing Friðriks Rafnssonar á metsölubók Romain Puértolas, Ævintýraferð fakírsins sem festist inni í IKEA skáp. Bréfabók er skáldsaga eftir einn virtasta höfund Rússa á okkar dögum, Míkaíl Shískín, sem kemur út í Neonklúbbi Bjarts í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur í október.



Alls ekki tæmandi

Hér hefur verið stiklað á mjög stóru yfir útgáfulista forlaganna og langt frá því að þetta sé tæmandi listi yfir bækur haustsins. Forleggjarar vilja gjarnan halda stórum tíðindum leyndum í lengstu lög og eins víst að stórtíðinda sé enn að vænta af bókamarkaðnum. Ljóst er þó af þessari upptalningu að bókaunnendur þurfa ekki að kvíða skammdeginu í ár og geta farið að láta sig hlakka til að smjatta á góðgætinu sem boðið er upp á langt fram eftir vetri.

Mynd/Vera Pálsdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×