Innlent

Tilnefndur til Eddunnar á tólf ára afmælisdaginn

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Ágúst er hæstánægður með þessa óvæntu tilnefningu á afmælisdaginn.
Ágúst er hæstánægður með þessa óvæntu tilnefningu á afmælisdaginn. MYND/EINKASAFN/SAMSETT
Ágúst Örn B. Wigum er einn þeirra sem er tilnefndur til Edduverðlaunanna í ár fyrir leik í aðalhlutverki. Hann fékk tilnefninguna fyrir leik sinn í stuttmyndinni Hvalfjörður. Tilnefningarnar voru kynntar í hádeginu og Ágúst á einmitt afmæli dag, hann er 12 ára.

„Það er bara mjög skemmtilegt að vera tilnefndur,“ segir Ágúst. „Þetta kom mér mjög mikið á óvart en ég vissi ekki að börn gætu fengið tilnefningu og ég frétti því af þessu fyrst í dag.“

Hvalfjörður fjallar um samband tveggja bræðra sem búa á litlum sveitabæ ásamt foreldrum sínum. Skyggnst er inn í heim þeirra bræðra frá sjónarhorni yngri bróðursins sem leikinn er af Ágústi. Leikstjóri myndarinnar er Guðmundur Arnar Guðmundsson.

Ágúst í hlutverki yngri bróðursins í stuttmyndinni Hvalfirði.
Ágúst var 10 ára þegar hann lék í myndinni. Áður hafði hann leikið í kvikmyndinni Eldfjall. Hann fór einnig með hlutverk lítils munaðarleysingja í leikritinu Oliver Twist sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu og hann lék einnig í Macbeth.

„Mér finnst alltaf gaman að leika,“ segir Ágúst sem langar rosalega til að verða leikari. Ágúst hefur búið til sínar eigin stuttmyndir sem hann og vinir hans hafa leikið í. Myndirnar hefur hann aðallega sýnt vinum sínum og fjölskyldu.

Honum finnst líka gaman í körfubolta og á hjólabretti.

Í tilefni dagsins er Ágúst á leiðinni út að borða á Hamborgarafabrikkunni og svo ætlar hann að sjá The Secret Life of Walter Mitty í bíó. Hann er búinn að fá nokkra pakka í dag.

„Ég fékk körfuboltaskó, bíómyndir, húfu og pening,“ segir Ágúst sem er hæstánægður með afmælisdaginn, gjafirnar og þessa óvæntu tilnefningu. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.