Lífið

Fær innilokunarkennd í Reykjavík á sumrin

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Birgittu Birgisdóttur leikkonu verður líkamlega illt þegar hún sér illa farið með náttúruna.
Birgittu Birgisdóttur leikkonu verður líkamlega illt þegar hún sér illa farið með náttúruna.
„Landverðir þurfa að vita lítið um margt og geta svarað spurningum um allt frá því hvar næsta klósett er að jarðlögum og eldfjöllum,“ segir leikkonan Birgitta Birgisdóttir sem nýverið nældi sér í landavarðarréttindi.

Birgitta hefur verið við nám í ferðamáladeild háskólans á Hólum í Hjaltadal þar sem tilgangurinn var að öðlast ofangreind réttindi.

„Ég hef lengi verið á höttunum eftir sumarstarfi úti á landi því ég þoli ekki Reykjavík á sumrin. Fæ innilokunarkennd,“ segir Birgitta sem starfar sem leikkona á veturna en vantaði að fylla upp í tómarúmið þegar leikhúsunum er lokað yfir sumartímann.

Birgitta hefur mikinn áhuga á náttúruvernd þó að hún vilji nú ekki meina að hún sé fanatísk í þeim efnum.

„Mér verður samt alveg líkamlega illt þegar ég sé að ekki er verið að hugsa um náttúruna. Það er líka lítill skilningur hjá yfirvöldum gagnvart þessum málaflokki en það er verið að fækka stöðugildum landvarða þrátt fyrir vaxandi átroðning ferðamanna, mjög skakkt sjónarmið.“

Birgitta, sem lék í Borgarleikhúsinu síðasta leikár, viðurkennir að um heljarinnar titil sé að ræða og vonast eftir því að geta starfað sem landvörður næsta sumar.

„Það væri frábært og þá helst sem lengst frá Reykjavík, kannski á Vestfjörðum. Það væri draumur.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.